Enski boltinn

Sendir leikmenn Liverpool í frí frekar en æfingaferð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp með fyrirliðanum Jordan Henderson.
Jürgen Klopp með fyrirliðanum Jordan Henderson. Getty/Jon Bromley

Það verður nóg að gera hjá Liverpool liðinu síðustu mánuði tímabilsins enda liðið líklegt til afreka bæði í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni.

Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp hefur verið að reyna að stýra álaginu á liðinu sem var ekki auðvelt í öllu leikjaálaginu í jólamánuðinum þar sem heimsmeistarakeppni félagsliða og ferðalag til Katar bættist ofan á alla aðra leiki.

Framundan er hins vegar smá frí nú þegar enska úrvalsdeildinni tekur sér í fyrsta sinn svokallað vetrarhlé þar sem liðin fá tækifæri til að hlaða batteríin fyrir lokakafla tímabilsins.

Flest liðanna ætla sér að komast í sól og hita sunnar á hnettinum og fara með leikmenn sína í stuttar æfingabúðir en Klopp hefur önnur plön samkvæmt frétt í Evening Standard.Liverpool fær tveggja vikna frí eftir leik sinn á móti Southampton á Anfield  1. febrúar næstkomandi. Næsti deildarleikur er síðan ekki fyrr en á móti Norwich City 15. febrúar.

Klopp hefur verið vanur að fara með Liverpool liðið í stuttar æfingaferðir til Spánar síðustu ár en nú vill hann fara aðra leið. Liverpool fór til La Manga árið 2017 en hefur undanfarin tvö ár æft á Marbella.

Klopp ætlar samkvæmt heimildum Evening Standard að gefa sínum leikmönnum eina viku í frí frá æfingum þar sem þá fá tækifæri til að safna orku og ferskleika fyrir framhaldið. Þetta eru verðlaun fyrir frábæra framgöngu liðsins til þessa á tímabilinu.

Það gæti reyndar eitt haft áhrif á þetta tveggja vikna frí. Fari svo að Liverpool þurfi að spila aukaleik á móti Shrewsbury Town í enska bikarnum þá fer sá leikur fram 5. febrúar og styttir því um leið þetta vetrarfrí Liverpool manna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.