Lífið

Magnús Scheving á háborði spænsku krúnunnar

Don Felipe De Borbón, krónprins Spánar og eiginkona hans, Letizia prinsessa, vilja vinna með Magnúsi Scheving til að bæta heilbrigði og heilsu Spánverja.
Don Felipe De Borbón, krónprins Spánar og eiginkona hans, Letizia prinsessa, vilja vinna með Magnúsi Scheving til að bæta heilbrigði og heilsu Spánverja.
„Prinsessan tjáði mér að stelpur þeirra hjóna væru miklir aðdáendur Latabæjar. Ég sagði henni að ég væri með tvo Sollu stirðu-búninga með mér og að þær mættu fá þá,“ segir Magnús Scheving.

Magnús var ræðumaður á ráðstefnu sem spænski krónprinsinn Don Felipe de Borbón og kona hans, Letizia prinsessa, héldu í Madríd fyrir skemmstu. Góðgerðasjóður krónprinsins hafði veg og vanda af ráðstefnunni en 500 stærstu fyrirtæki Spánar sóttu hana ásamt fulltrúum frá háskólum landsins auk ungra frumkvöðla. Tilgangur ráðstefnunnar var að finna leiðir út úr þeim alvarlegu efnahagsþrengingum sem landið stendur frammi fyrir.

Spænski prinsinn og prinsessan hrifust mjög af málflutningi Magnúsar og hafa boðað hann á sinni fund í Madríd. Þar vilja þau ræða hvernig megi bæta heilsu spænsku þjóðarinnar og hvernig Latibær geti komið að því verkefni en Latibær nýtur mikilla vinsælda á Spáni. Samkvæmt nýlegum rannsóknum eru spænsk börn þau fjórðu feitustu í heimi og á því vill konungsfólkið vinna bug með aðstoð Íþróttaálfsins. „Þrjátíu prósent barna á Spáni hafa aldrei smakkað brokkólí og fjórtán prósent þeirra hafa aldrei opnað appelsínu.“

Magnús var kvöldið fyrir ráðstefnuna heiðursgestur í kvöldverðarboði og sat við hliðina á prinsessunni við sérstakt háborð. „Hún var mjög hress og almennileg og vissi nánast allt um Latabæ. Spánverjar virðast almennt fylgjast mjög vel með því á hvað börnin þeirra eru að horfa .“- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.