Fyrstu leikirnir í Emirates-bikarnum fóru fram í dag þegar Arsenal vann Atletico Madrid 2-1 og Rangers vann Paris St. Germain 1-0.
Bæði Arsenal og Atletico Madrid stilltu upp sterkum byrjunarliðum í dag en staðan var markalaus þegar flautað var til hálfleiks.
Það stefndi reyndar lengi vel í markalaust jafntefli þegar Andrey Arshavin, sem kom inná á 66. mínútu, opnaði markareikninginn fyrir Arsenal á 86. mínútu.
German Pacheco náði svo að jafna metin á 88. mínútu áður en Arshavin skoraði sigurmarkið stuttu síðar, 2-1.
Madjid Bougherra skoraði eina mark leiksins þegar Rangers vann Paris St. Germain. Arsenal og Rangers mætast svo á morgun og þá tekur Atletico Madrid á móti Paris St. Germain.