Innlent

Hafnarfjörður nýtur vinsælda

Hafnarfjörður virðist njóta sérstöðu hvað varðar fjölgun íbúa það sem af er þessu ári. Kemur í ljós samkvæmt tölum Hagstofu Íslands að tæplega 300 fleiri fluttu til bæjarins en frá á fyrrihluta ársins. Er það í hróplegu ósamræmi við nágrannabæjarfélagið í Garðabæ en þar fækkaði íbúum um 50. Garðabær er þó ekki eini bærinn á sunnanverðu horninu sem svo er ástatt um. Íbúum á Seltjarnarnesi fækkaði um 40 en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu varð lítils háttar fjölgun. Íbúum í höfuðstað Norðurlands, Akureyri, fjölgaði um þrettán talsins en athygli vekur að fækkun varð á Egilsstöðum. Þar fluttu átta fleiri frá bænum en til hans. Hafa ber í huga að eingöngu er um tölur að ræða frá janúar til júní og oft líður einhver tími frá flutningum og þangað til Hagstofu berst tilkynning um það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×