Innlent

Sameiningar fækka fagfólki á leikskólum

Leikskólakennarar og foreldrar mótmæltu þegar sameiningaráform í leikskólum voru kynnt í borgarstjórn í febrúar á síðasta ári.
Leikskólakennarar og foreldrar mótmæltu þegar sameiningaráform í leikskólum voru kynnt í borgarstjórn í febrúar á síðasta ári. fréttablaðið/stefán
Foreldrar á leikskólanum Funaborg í Grafarvogi segjast búnir að fá sig fullsadda af „aðgerðaleysi, áhugaleysi og samskiptaleysi stjórnenda leikskólans, leikskólasviðs Reykjavíkurborgar og formanns menntaráðs,“ vegna sameininga þriggja leikskóla í hverfinu.

Þetta kemur fram í bréfi sem foreldrafélag Funaborgar sendi borgarfulltrúum og embættismönnum hjá borginni í apríl. Foreldrafélagið boðaði til fundar með borgarfulltrúum, stjórnendum leikskólans, leikskólasviði og öðrum í lok apríl. Í bréfinu kemur fram að fundurinn hafi verið boðaður með stuðningi og eftir áskorun meirihluta foreldra barna við leikskólann. Hætt var við fundinn að lokum vegna dræmra undirtekta leikskólasviðs og borgarfulltrúa, en Kjartan Magnússon var eini borgarfulltrúinn sem staðfesti komu sína. Hann situr í skóla- og frístundaráði, sem áður hét menntaráð.

Leikskólarnir Foldaborg, Foldakot og Funaborg voru sameinaðir í fyrra. Sameinaður leikskóli heitir nú Sunnufold. Í bréfi foreldranna kemur fram að rót óánægju þeirra sé uppsögn leikskólastjórans og aðstoðarleikskólastjórans í kjölfar sameiningarinnar. Nokkrum mánuðum seinna hafi matráður leikskólans svo hætt störfum. Það sem fyllt hafi mælinn hjá foreldrunum hafi að lokum verið að deildarstjóri á leikskólanum og leikskólaliði hafi sagt upp störfum, en foreldrum var tilkynnt um það í apríl. „Í kjölfar þessa er ljóst að fagmenntuðu starfsfólki hefur fækkað verulega og í lok uppsagnarfrests þeirra er einn fagmenntaður starfsmaður starfandi á leikskólanum,“ að því er segir í bréfinu.

„Staðreyndir málsins liggja fyrir en þær eru að Funaborg hefur farið úr 52 fullnýttum leikskólaplássum í 32 pláss. Leikskólinn fór úr þriggja deilda leikskóla í tveggja og faglærðu starfsfólki hefur fækkað úr fimm í einn.“

Foreldrarnir segja lítið sem ekkert samráð hafa verið haft við foreldra eða fulltrúa þeirra. „Verulegrar óánægju hefur gætt meðal starfsfólks sem sannarlega hefur skilað sér í óöryggi barnanna og óvissu foreldra sem er nú óbærileg [...] Sú tilraun sem gerð var á börnum okkar með sameiningunni hefur mistekist og skorað er á þá sem hlut eiga að máli að viðurkenna mistök sín og hefja nú þegar uppbyggingu leikskólans.“

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×