Lífið

Kepp­endur í Euro­vision koma fram í tveggja klukku­stunda þætti

Stefán Árni Pálsson skrifar
Daði Freyr og Gagnamagnið munu væntanlega koma fram. 
Daði Freyr og Gagnamagnið munu væntanlega koma fram. 

Aðstandendur Eurovision-keppninnar, sem fram átti að fara í Rotterdam, vinna nú að þætti sem sýndur verður þegar úrslitkvöld keppninnar hefði að óbreyttu farið fram þann 16. maí. Í þættinum, sem fengið hefur heitið Eurovision: Europe Shine A Light, verða lög ársins heiðruð - á „ókeppnislegan hátt“ eins og það er orðað í yfirlýsingu EBU vegna málsins.

Stefnt er að því að þátturinn verði um tveggja klukkustunda langur og munu allir flytjendur, Daði Freyr og Gagnamagnið væntanlega þar með talin, taka þátt í að flytja sígildn Eurovision-smell hver í sínu horni.

Þá verða margvísleg skemmtiatriði og gamlir Eurovision-farar fengnir til að sameina Evrópu í söng. Nánari upplýsingar um útsendinguna verða aðgengilegar á næstu vikum.

Haft er eftir Jon Ola Sand, fráfarandi framkvæmdastjóra keppninnar, að hann voni að sem flestir meðlimir EBU sjónvarpi þættinum þann 16. maí. Þannig megi stuðla að aukinni samheldni í Evrópu, sem er jú aðalsmerki Eurovision.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×