Erlent

Herða reglur um sóttkví í Færeyjum

Sylvía Hall skrifar
Reglurnar eru nú sambærilegar þeim sem gilda hér á landi að sögn Shahin Gaini, smitsjúkdómalæknis í Færeyjum.
Reglurnar eru nú sambærilegar þeim sem gilda hér á landi að sögn Shahin Gaini, smitsjúkdómalæknis í Færeyjum. Vísir/Getty

Færeyingar hertu í gær reglur um sóttkví á eyjunum. Nú þarf einstaklingur að vera í sóttkví í fjórtán daga eftir að hann greinist með kórónuveiruna, óháð því hvenær hann fann síðast fyrir einkennum. Áður þurftu einstaklingar aðeins að vera í sóttkví í 48 klukkustundir frá því að þeir fundu síðast fyrir einkennum.

Á vef Heilbrigðisráðuneytis Færeyja kemur fram að þetta hafi verið ákveðið eftir að nýjar rannsóknir bentu til þess að þú getir smitað í lengri tíma eftir að hafa fundið fyrir síðustu sjúkdómseinkennum.

Með því að herða á reglunum er nú horfið frá þeim reglum sem gilda í Danmörku en þær þóttu ekki henta aðstæðum í Færeyjum eins og er. Reglurnar eru nú sambærilegar þeim sem gilda hér á landi

Á vef Kringvarpsins er rætt við Shahin Gaini smitsjúkdómalækni í Færeyjum. Hann segir stöðuna síbreytilega og því þurfi að endurmeta hana reglulega en honum þykir Danir vera of frjálslegir í sinni nálgun. Því henti þær reglur ekki Færeyingum lengur, en 159 smit hafa verið staðfest á eyjunum.

Hann segir þessar sóttvarnaraðgerðir sem nú verður notast við vænlegri til árangurs og bendir á að Ísland og Noregur styðjist við svipaða aðferð sem hafi reynst vel.

„Það lítur út fyrir að þau hafi stjórn á aðstæðunum, bæði í Noregi og Íslandi, og við viljum meina að við höfum það líka hér í Færeyjum,“ sagði Gaini.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum hafa verið tekin sýni úr 7,4% Færeyinga og er það hæsta hlutfall sem þekkist á heimsvísu. Til samanburðar hafa verið tekin sýni úr 4,25% þjóðarinnar hér heima.


Tengdar fréttir

Staðfesta smit í færeyskum Frakklandsfara

Kórónuveiran er komin til Færeyja en yfirvöld þar í landi greindu frá því fyrir stundu að einn Færeyingur hafi greinst með veiruna eftir ferð til Parísar í Frakklandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×