Lífið kynningar

Heima-helgistundir í beinni á Vísi næstu sunnudaga

Fyrstu heima-helgistundinni verður streymt frá Laugarneskirkju á morgun sunnudag klukkan 17.
Fyrstu heima-helgistundinni verður streymt frá Laugarneskirkju á morgun sunnudag klukkan 17.

Heima-helgistundum á vegum þjóðkirkjunnar verður streymt hér á Vísi næstu fjóra sunnudaga. Fyrsta útsendingin verður frá Laugarneskirkju klukkan 17 á morgun, sunnudaginn 22. mars. Pétur G. Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu segir aðstæður í samfélaginu kalla á nýja nálgun í þjónustu kirkjunnar.

„Meðan samkomubann ríkir viljum við færa þjóðkirkjuna og hennar starf heim í stofu. Fólk getur átt þá hugleiðslu, bæn og kyrrð sem það annars myndi eiga í kirkjunni, heima hjá sér. Kirkjan hefur miklar skyldur gagnvart þjóðinni og þetta er ein leiðin til þess að uppfylla þær. Þrjár kirkjur ríða á vaðið, Laugarneskirkja, þá Lindakirkja og svo Vídalínskirkja, framhaldið spilum við svo eftir eyranu eftir því hvernig málin þróast,“ segir Pétur. Formið á helgistundunum svipar til messu, með hugvekju, bæn og tónlist, en er þó knappara, eða 25 til 30 mínútur.

Pétur Georg Markan, samskiptastjóri Biskupsstofu.

Pétur segir marga setja sig í samband við kirkjuna þessa dagana. Þegar reyni á komi í ljós að kirkjan gegni margþættu hlutverki.

„Við gleymum því oft hvað kirkjan er mikill þátttakandi í samfélaginu. Hún er ennþá hornsteinn í okkar fjölbreytta félags- menningar og trúarlífi. Fólk hefur samband og veltir ýmsu fyrir sér í skipulagningu kirkjunnar sem það gerði ráð fyrir en breytist með samkomubanni. Sem dæmi má nefna fermingarstundir færast úr stað, sem eru örugglega fjölmennustu ættarmót Íslands. Breyttar útfærslur á útförum, þessi síðasti spölur sem við eigum með ástvinum okkar sem er viðkvæm, mikilvæg og falleg stund. Þá er ofboðslega fjölbreytt, fjölmennt og öflugt eldriborgarastarf sem fram fer í kirkjunni sem riðlast til í þeirri félagslegu kreppu sem samkomubann er. Kirkjan er því hornsteinn í menningar- og félagslífi Íslands og þarf að hugsa upp nýjar leiðir til að uppfylla þá þjónustuskyldu. Heimahelgistund er liður í því.

Okkar upplifun er að fólk er andlega leitandi á þessum tímum. Fólk leitar í trú, von og kærleika þegar það tekst á við krefjandi verkefni. Við leitum í Æðruleysisbænina og sækjum þangað sátt, kjark og vit. Það er bæði áskorun fyrir kirkjuna að bjóða upp á þá andlegu þjónustu sem fólk hefur ríka þörf á og skylda sem þjóðkirkja að vera andlegur, félagslegur og menningarlegur hornsteinn á krefjandi tímum.

Auk þessa verður kirkjan með þætti á Hringbraut þar sem við ræðum von, trú og framtíð. Við verðum daglega með hugvekjur og pistla í Morgunblaðinu. Þá er komið barnaefni á netið sem hægt er að nálgast. Netkirkjan býður upp á faglega sálgæslu á öllum tímum sólahringsins. Svo verður að sjálfsögðu Páskamessa í sjónvarpi landsmanna – upprisan og sigur lífsins á dauðanum. Þannig kveðum við þennan veirufjanda í kútinn. Við komum með kirkjuna til þjóðarinnar. Minna á það ekki að vera.

Fyrst og fremst viljum við vera nálægt fólkinu okkar og vera til staðar á þessum sérstöku tímum og það er kveikjan að Heima-helgistundunum. Við erum þetta ástand saman og við sigrum þessa áskorun samtaka. Við viljum að fólk finni að það er birta og von í þessu öllu og á endanum lifir ljósið, lífið og framtíðin.“

Beint streymi frá Heima-helgistundinni hefst klukkan 17 á sunnudaginn.

Þessi kynning er unnin í samstarfi við Biskupsstofu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×