Innlent

Lungnasjúklingar í margra mánaða félagslegri einangrun

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Aldís hefur áhyggjur af félagsmönnum, af félagslegri einangrun þeirra og heilsu. 
Aldís hefur áhyggjur af félagsmönnum, af félagslegri einangrun þeirra og heilsu. 

Yfir tvö þúsund astmasjúklingar eru á Íslandi og lungnasjúklingar, til dæmis með langvinna lungnateppu og aðra alvarlega lungnasjúkdóma, eru yfir þúsund talsins.

Í Samtökum lungnasjúklinga er á sjötta hundrað manns. Aldís Jónsdóttir er formaður samtakanna og segir félagsmenn hafa verið í sjálfskipaðri sóttkví frá því að fyrsti Íslendingurinn greindist með kórónuveiruna fyrir þremur vikum. Fólk hafi þurft að loka sig af, líka frá fjölskyldu, eða halda að minnsta kosti tveggja metra fjarlægð.

„Það er misjafnt hvað fólk er með gott stuðningsnet. Sumir hafa aðstöðu fyrir aðstandanda heima hjá sér sem aðstoðar það og aðrir fá heimsent. Sumir sem hafa heilsu komast einir út að ganga en fara ekki þar sem annað fólk er.“.

Aldís segir þetta vissulega einangrun en hvetur fólk til að hafa samskipti í gegnum netmiðla eða síma. Hún segir að fólk sé vissulega kvíðið.

„Já, hver er það ekki? Maður veit ekki hver er smitaður og hver er ekki.“

Ljóst er að félagsleg einangrun lungnasjúklinga getur staðið yfir í marga mánuði eða þar til veiran gengur yfir en Aldís bendir á að margir lungnasjúklingar hafi í raun verið í einangrun frá því í nóvember.

„Færðin hefur verið að setja skoðrur, lungnasjúklingar fara ekki út í vindbyl og kafsnjó eins og hefur verið fyrir norðan, austan og vestan. Þetta er eiginlega búið að vera einangrun síðan í nóvember, meira eða minna,“ segir Aldís sem minnir á mikilvægi hreyfingar, heima í stofu eða í göngutúr fjarri öðrum og þá með buff eða grímu fyrir vitunum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×