Fótbolti

Sadio Mane skaut Senegal inn í lokakeppnina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane gat brosað í leikslok en sigurmarkið hans kom á lokakafla leiksins.
Sadio Mane gat brosað í leikslok en sigurmarkið hans kom á lokakafla leiksins. Getty/Xaume Olleros

Liverpool maðurinn Sadio Mane var hetja Senegal í undankeppni Afríkukeppninnar í knattspyrnu í gær.

Sadio Mane skoraði sigurmarkið í 1-0 útisigri á Gínea-Bissá í gær en þessi sigur þýddi að Senegal er búið að tryggja sér sæti í lokakeppni Afríkukeppninnar sem fer fram árið 2022.

Sigurmark Sadio Mane kom á 82. mínútu leiksins en hann skoraði einnig í 2-0 sigri á Gínea-Bissá síðastliðinn miðvikudag.

Mané bætti þar með fyrir klúður sitt fyrir opnu marki fyrr í leiknum.

Senegal er aðeins önnur þjóðin til að komast í lokaúrslitin á eftir gestgjöfum Kamerún. Senegal er líka efsta Afríkuþjóðin á FIFA-listanum í dag.

Senegal hefur náð í tólf stig af tólf mögulegum í undankeppninni og er því komið í lokaúrslitin þrátt fyrir að tveir leikir séu eftir.

Afríkukeppnin átti að fara fram á næsta ári en var frestað til ársins 2022 vegna kórónuveirufaraldursins.

Sadio Mane hefur nú skora 21 mark í 71 landsleik fyrir Senegal. Hann er þriðji markahæsti landsliðsmaðurinn á eftir þeim Henri Camara (29) og El Hadji Diouf (24).

Liverpool maðurinn Naby Keita skoraði líka fyrir sitt landslið í undankeppni Afríkumótsins því hann skoraði fryir Gínea í 1-1 jafntefli á móti Tjad. Keita spilaði sem framherji í leiknum.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá þessum tveimur leikjum af Twitter síðu afríska knattspyrnusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×