Innlent

Fálki hámaði í sig hettumáv á palli í Fossvogi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fálkinn var hinn rólegasti við „matarborðið“ þrátt fyrir myndatökur Þórdísar í gær.
Fálkinn var hinn rólegasti við „matarborðið“ þrátt fyrir myndatökur Þórdísar í gær. Þórdís Bragadóttir

Þórdís Bragadóttir, íbúi í Fossvogi, vissi ekki alveg hvaðan á sig stóð veðrið í gær þegar fálki birtist á pallinum heima hjá henni og fór að háma í sig ungan hettumáv sem þar lá dauður.

Það tók fálkann um klukkustund að éta mávinn en að máltíð lokinni var hann heldur þungur á sér og gat ekki flogið af stað. Þórdís kallaði því á fuglavin sem starfar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem kom og sótti fálkann og fór með hann til dýralæknis.

Fálkinn reyndist ekkert slasaður, bara pakksaddur og sæll, en farið var með hann í Húsdýragarðinn þar sem hann fékk að jafna sig í nótt. Fálkanum verður svo sleppt í dag.

„Þetta er mögnuð upplifun að verða vitni að þessu. Ég var að vinna heima og verð vör við einhvern umgang og einhverja dynki og áttaði mig ekki á því hvað var í gangi. Mér verður litið út og sé að það liggur dauður fugl á pallinum. Ég ætlaði að fjarlægja hann og ég lagði hann á dagblað upp á borð alveg upp við húsið. Svo bara nokkru seinna heyri ég aftur einhvern umgang og þá er kominn þarna á pallinn þessi fallegi fálki,“ sagði Þórdís frá í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Hún sagði fálkann hafa verið góða stund að reyna að átta sig á því hvort hann ætti að fara í hettumávinn eða ekki.

„Hann sat þarna lengi á handriðinu og horfði á mig og horfði á fuglinn og svo bara hófst hann handa við að borða fuglinn. […] Hann sat þarna góða stund áður en hann byrjaði og svo var hann alveg í klukkutíma að tæta hann í sig og skildi ekki neitt eftir nema bara vængina og lappirnar. Svo þegar hann var búinn að borða þá komst hann eiginlega bara ekki neitt. Hann tyllti sér þarna á stólbak og sat þar örugglega í korter að reyna að jafna sig,“ sagði Þórdís.

Hún fór nokkrum sinnum út á pallinn og tók nokkur myndbönd og myndir en fálkinn kippti sér ekkert upp við það.

Aðspurð hvort að mávurinn hefði flogið á gluggann hjá henni sagðist Þórdís ekki vera viss hvað gerðist.

„Ég átta ekki mig á því hvort þetta voru átök þeirra á milli eða hvort hann fór á glerið í handriðinu. Það hefur nefnilega oft gerst hjá okkur að þeir fljúga á handriðið. Í síðustu viku var dauður fugl þarna á pallinum. Þannig að ég vissi ekki hvort það var, hvort að fálkinn hafði náð honum einhvern veginn eða hvort hann hafi flogið á glerið.“

Fálkinn fór síðan niður af efri pallinum og á neðri pallinn.

„Þar var hann lengi að labba um og náði einhvern veginn ekki að hefja sig til flugs. Hann var að reyna að komast upp á grindverkið og komst ekki og þá fór ég nú að hafa svolítið áhyggjur af honum því það eru kettir hérna og svo hundarnir mínir,“ sagði Þórdís.

Þá hafi hún hringt í fuglavininn hjá lögreglunni sem kom og náði í fálkann. Hann fór með hann til dýralæknis og þaðan í Húsdýragarðinn þar sem hann fékk að jafna sig, eins og áður sagði.

Hér ofar í fréttinni má sjá myndböndin sem Þórdís tók í gær en það er ekki ofsögum sagt að þau séu ansi mögnuð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×