Menning

Evrópsku kvik­mynda­verð­launin í Reykja­vík 2022 í stað 2020

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Juliette Binoche tekur hér við heiðursverðlaunum Evrópsku kvikmyndaakademíunnar á verðlaunahátíðinni í fyrra.
Juliette Binoche tekur hér við heiðursverðlaunum Evrópsku kvikmyndaakademíunnar á verðlaunahátíðinni í fyrra. Getty/Clemens Bilan - Pool/

Verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2020 sem halda átti í Reykjavík í desember verður haldin rafrænt og án áhorfenda í Berlín þann 12. desember næstkomandi.

Í staðinn verða Evrópsku kvikmyndaverðlaunin veitt í Reykjavík í desember árið 2022.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Evrópsku kvikmyndaakademíunni en ákvörðunin er tekin í ljósi kórónuveirufaraldursins.

Í tilkynningunni segir að ákvörðunin sé tekin í fullu og góðu samráði við Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, og Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.

Venju samkvæmt mun hátíðin fara fram í Berlín á næsta ári þar sem hún er haldin annað hvert ár og hitt árið er hún svo haldin í einhverri evrópskri borg, líkt og átti að gera í ár.

Í tilkynningunni segir að kórónuveirufaraldurinn hafi mikil áhrif á Evrópsku kvikmyndaverðlaunin líkt og aðra viðburði um heim allan.

Þannig verða tilnefningar til verðlaunanna einnig tilkynntar rafrænt og þá vinnur Evrópska kvikmyndaakademían að því að halda viðburði rafrænt í tengslum við verðlaunahátíðina sjálfa.

Haft er eftir Mike Downey, formanni Evrópsku kvikmyndaakademíunnar, að ákvörðunin um að halda hátíðina rafrænt hafi ekki verið auðveld. Hann vonist hins vegar til þess að það verði að halda enn betri viðburð á Íslandi árið 2022 þegar heimurinn hafi vonandi sigrast á Covid-19.

Undir þetta taka bæði Lilja og Dagur í tilkynningunni.

„Við erum bjartsýn og spennt að vinna með Evrópsku kvikmyndaakademíunni að skipulagningu verðlaunahátíðarinnar árið 2022 og vonumst til að sjá ykkur öll í Reykjavík eftir tvö ár,“ segir Lilja.

„Þetta er eina skynsamlega ákvörðunin sem hægt er að taka á þessum tímapunkti. Að tveimur árum liðnum höfum við vonandi sigrast á veirunni og það verður bara meira spennandi að halda þennan frábæra viðburð í Hörpu, okkar fallegu tónlistar- og ráðstefnuhöll,” segir Dagur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.