Enski boltinn

Treyjur stelpnanna seldust betur en treyjur karlanna hjá Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tobin Heath og Christen Press eftir fyrsta leikinn með Manchester United sem var á móti Brighton and Hove Albion.
Tobin Heath og Christen Press eftir fyrsta leikinn með Manchester United sem var á móti Brighton and Hove Albion. Getty/Matthew Ashton

Það er óhætt að segja að koma bandarísku heimsmeistaranna Christen Press og Tobin Heath hafi vakið lukku hjá stuðningsmönnum kvennaliðs Manchester United.

Kvennalið Manchester United var stofnað 28. maí 2018 og ári síðar var liðið komið upp í úrvalsdeildina. Liðið endaði í fjórða sæti á sínu fyrsta tímabili en markmiðið er að gera enn betur.

Stórt skref í því var að semja við tvo leikmenn úr heimsmeistaralið Bandaríkjanna en það eru framherjarnir Christen Press og Tobin Heath. Báðar skrifuðu þær undir eins árs samning við liðið 9. september síðastliðinn.

Koma þeirra vakti mikla athygli og það sást ekki síst á treyjusölu hjá Manchester United.

Í fyrsta skipti í sögu Manchester United þá seldust fleiri treyjur merktar leikmönnum kvennaliðsins en leikmönnum karlaliðsins.

Munaði mestu um treyjur merktar þeim Christen Press og Tobin Heath. Þær seldust betur en treyjur karlanna fyrstu þrjá dagana eftir að þær voru tilkynntar sem nýir leikmenn liðsins.

Tobin Heath er 32 ára gömul og spilaði síðast með Portland Thorns. Hún varð bandarískur meistari hjá Portland Thorns með Dagnýju Brynjarsdóttur. Tobin Heath hefur skorað 33 mörk í 168 landsleikjum og er bæði tvöfaldur heimsmeistari og tvöfaldur Ólympíumeistari með liðinu.

Christen Press er 31 ára gömul og spilaði síðast með Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur hjá Utah Royals. Press hefur skorað 58 mörk í 138 landsleikjum og er tvöfaldur heimsmeistari með liðinu. Hún var hins vegar ekki með þegar liðið vann Ólympíugullin 2008 og 2012.

Þær eru líka byrjaðar að láta að sér kveða hjá Manchester United en hér fyrir neðan má sjá Tobin Heath leggja upp mark í sigri á Brighton. Þær komu báðar inn á sem varamenn í þessum 3-0 sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×