Innlent

Tölvuþrjótar nýti sér heimsfaraldurinn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar

Netglæpir hafa aukist í kórónuveirufaraldrinum, að sögn fyrrverandi framkvæmdastjóra Europol. Einstaklingur hér á landi mun hafa tapað hundrað milljónum króna eftir að hafa lent í klóm netþrjóta.

Kórónuveiran virðist hafa reynst olía á eld tölvuþrjóta sem herja nú á fólk sem aldrei fyrr, sér í lagi þegar fleiri þurfa að reiða sig á hina stafrænu tækni. Lögregla og fyrirtæki hafa þannig ítrekað þurft að vara við svindlpóstum, smáskilaboðum og svokölluðum vefveiðum. Netöryggi var til umræðu á málþingi sem samgönguráðuneytið stóð fyrir í Hörpu.

„Við sáum glæpamenn reyna að nýta sér ástandið þegar í stað með nýjum tilraunum til að svíkja fé af fólki. Það var mikið um falskar vefsíður sem buðu falskar prufur, til dæmis falskt bóluefni, og það var reynt að stela auðkennum fólks víða um heim,“ segir Sir Rob Wainwright, meðeigandi Deloitte í Evrópu og fyrrverandi framkvæmdastjóri Europol.

Hann segir glæpina hafa breyst mikið í gegnum árin og að netþrjótar finni stöðugt nýjar leiðir við að hafa fé af fólki.

„Það hafa komið fram ný form glæpa og þetta hefur sprungið út í netöryggisumhverfinu sem við höfum,“ bætir Wainwright við.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir þetta mikið og vaxandi vandamál en að þau séu flest unnin í samstarfi við erlend lögregluyfirvöld. Daði Gunnarsson hjá netglæpadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir tugi mála vera á borði lögreglunnar.

„Glæpirnir sem við höfum verið að sjá hafa verið svikapóstar, tölvupóstar þar sem reynt er að fá starfsmenn fyrirtækja til að millifæra peninga," segir Daði. Hann segir um tvo milljarða hafa tapast á árinu vegna netglæpa og að dæmi sé um að einstaklingur hafi tapað hundrað milljónum króna í fjárfestingasvindli. Hann segir þó að líklega séu málin miklu fleiri því fólk og fyrirtæki veigri sér við því að tilkynna um slík brot af ótta við að bíða álitshnekki.

„Þetta er mjög stórt vandamál og við fórum yfir upphæðir og þá vorum við kannski að tala um tvo milljarða en við reiknum alveg með töluvert hærri fjárhæðum.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×