Innlent

Halli ríkissjóðs ekki tapað fé að mati Bjarna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. Vísir/Vilhelm

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræddi um það sem hann vildi gjarnan fá að sjá aftur eftir að búið er að vinna bug á kórónuveirunni, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

„Það sem ég vil fá aftur er næg vinna, óheft samskipti og heilsufarslegt öryggi. Hversdagslíf sem gengur eðlilega fyriri sig, þar sem fólk er ekki sent í sóttkví eftir að hafa farið með barnið sitt á leikskólann eða þar sem þarf að sigla í land með fullan bát af veikum sjómönnum.

En það sem ég vil að breytist er fjölbreytni atvinnulífsins. Fleiri stoðir, áhersla á þekkingu og atvinnugreinar sem eru ekki eins viðkvæmar fyrir sveiflum náttúrunnar, - jafnvel dyntum náttúrunnar - og þær sem við treystum svo mjög á nú. Ég vil sjá veg fyrri stoða sem mestan, að ferðaþjónusta blómstri, útvegurinn afli vel og álframleiðslan verði greidd sanngjörnu verði,“ sagði Bjarni.

Í ræðu sinni ræddi hann einnig um að mikilvægt væri að taka utan um fólk og fyrirtæki á þann hátt að þau kæmust hratt aftur á fæturna þegar bjartari tímar líta dagsins ljós.

„Án atvinnulífsins verður engin viðspyrna. Án atvinnulífsins eru engin störf, hvorki núna né til að snúa aftur í. Þess vegna er mikilvægt að við gerum það sem hægt er að gera til að milda áfallið og stytta atrennuna að næsta hagvaxtarskeiði.“

Ríkisstjórnin hafi því ákveðið að gera það sem í hennar valdi stendur til að lífið geti haldið áfram, því væri hallarekstur ríkissjóðs réttlætanlegur við þær aðstæður sem nú eru uppi.

„Halli ríkissjóðs er ekki tapað fé. Honum er varið til að standa með heimilunum og styðja fyrirtæki í gegnum erfiða tíma, fjárfesta í betri tækni, sterkari innviðum og styðja rannsóknir, þróun og nýsköpun, hraða orkuskiptum og ná markmiðum í loftslagsmálum, lækka skatta og tryggja skattalegar ívilnunir til að örva fjárfestingu þegar hana skortir.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×