Innlent

Kjaramál og kreppa til umræðu á Sprengisandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorsteinn og Ragnar Þór sjá hlutina ekki alveg sömu augum þegar kemur að kjaramálum á vinnumarkaði.
Þorsteinn og Ragnar Þór sjá hlutina ekki alveg sömu augum þegar kemur að kjaramálum á vinnumarkaði.

Fjármálakreppa, staða öryrkja, deilur á vinnumarkaði og vinnsla matvæla verður í deiglunni á Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Kristján Kristjánsson fær góða gesti í þáttinn til sín sem hefst klukkan 10 og stendur yfir tólf þegar hádegisfréttir fara í loftið á Bylgjunni.

Hægt er að hlusta á Sprengisand á Bylgjunni hér.

Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika verður fyrsti gestur þáttarins. Gunnar er lögfræðingur með MBA próf frá Yale og var síðast framkvæmdastjóri lausafjársviðs og persónuverndar Goldman Sachs International í Lundúnum. Innanlandsástandið verður skoðað með augum seðlabankamannsins, kannski ekki síst hvernig þessi djúpa kreppa birtist ólíkum hópum.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalagsins sest næst í stólinn. Hvernig ætli umbjóðendum hennar reiði af á tímum Covid? Ný rannsókn Hagfræðistofnunar HÍ verður til umræðu. Hvernig örorkulífeyrir hefði þróast frá 2010 ef miðað hefði verið lög um þingfararkaup en ekki 69. grein laga um almannatryggingar. Hvort viðmiðið skyldi nú hafa verið hagfelldara? Sömuleiðis þá staðreynd að þrátt fyrir fögur orð í starfsmannastefnu stjórnarráðsins starfa nánast engir með skerta starfsgetu í ráðuneytunum okkar.

Þorsteinn Víglundsson fyrrverandi félagsmálaráðherra og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR koma líka og takast á um forsendurnar fyrir kjarabótum samkvæmt lífskjarasamningnum og við förum yfir skuggastjórnun í stjórnum lífeyrissjóðanna.

Gréta María Grétarsdóttir verður síðasti gesturinn, formaður stjórnar nýstofnaðs Matvælasjóðs sem á að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla um land allt og líka markaðssókn á erlendum mörkuðum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×