Innlent

Grátbiður dómsmálaráðherra að sýna börnum sínum miskunn

Birgir Olgeirsson skrifar
Hér má sjá fjölskylduna áður en hún var færð í Covid-próf í dag.
Hér má sjá fjölskylduna áður en hún var færð í Covid-próf í dag. Vísir/Baldur

Egypsk móðir biður dómsmálaráðherra um að sýna börnum sínum miskunn. Fjölskyldunni verður að óbreyttu vísað úr landi á miðvikudag, en hún var send í Covid-próf í dag til að undirbúa brottför.

Þessi sex manna egypska fjölskylda hefur dvalið hér á landi í tvö ár og berst nú fyrir því að fá pólitískt hæli. Fjölskyldufaðirinn hafði tekið þátt í pólitísku starfi í Egyptalandi gegn ríkjandi stjórnvöldum. Óttast foreldrarnir að þeir verði handteknir við komuna til Egyptalands og börnin tekin af þeim. Verður þeim að óbreyttu vísað úr landi á miðvikudag.

Stoðdeild ríkislögreglustjóra sótti fjölskylduna á Ásbrú og flutti hana til Reykjavíkur þar sem hún var skimuð fyrir Covid. Er það liður í undirbúningi fyrir brottför.

Forsætisráðherra sagði í gær að hann væri sammála þeim sjónarmiðum að skoða ætti heildar dvalartíma umsækjenda á Íslandi en ekki málsmeðferðartíma þegar ákvarðanir um brottvísanir eru teknar. Dómsmálaráðherra hefur sagt að reglugerðarbreyting komi ekki til greina fyrir fjölskylduna. Fjölskyldumóðirin grátbiður dómsmálaráðherra um að sýna börnunum miskunn.

„Ég er að tala til þín, fyrir hönd barna minna, sem fara á götuna ef þetta verður að veruleika. Ekki hunsa okkur,“ segir móðirin Doaa Mohamed Eldeib.

Börnin óttast mjög að fara til Egyptalands.

„Ég er hrædd um að löggan geri eitthvað við pabba eða mömmu. Ég er mjög hrædd um það,“ segir Rewida Ibrahim Kedr, dóttir hjónanna.

„Í Egyptalandi á fólk ekki fyrir mat og hefur ekki hús. Við viljum ekki fara til Egyptalands,“ segir sonur hjónanna Abdalla Ibrahim Khedr.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.