Erlent

Kenna Kínverjum enn um átök á landamærunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi mynd er frá því í sumar og sýnir bílalest indverska hersins flytja hermenn að landamærum Indlands og Kína.
Þessi mynd er frá því í sumar og sýnir bílalest indverska hersins flytja hermenn að landamærum Indlands og Kína. AP/Mukhtar Khan

Yfirvöld á Indlandi segja hermenn landsins hafa stöðvað „storkandi“ hernaðarhreyfingar Kínverja í hinu umdeilda Ladakhhéraði Í Kasmír. Hershöfðingjar beggja ríkja komu saman á landamærunum í nótt eftir umfangsmiklar og mannskæðar deilur síðustu mánaða.

Í yfirlýsingu frá Varnarmálráðuneyti Indlands, sem AP vitnar í, segir að hermenn Kína hafi um helgina brotið gegn þeim samkomulögum sem ríkin hafi áður komið að og breyta stöðunni á svæðinu. Þar segir enn fremur að indverskir hermenn hafi styrkt stöður sínar og komið í veg fyrir aðgerðir Kínverja.

Til stríðs kom á milli Indlands og Kína árið 1962 og unnu Kínverjar það með afgerandi hætti. Í júní féllu tuttugu indverskir hermenn í átökum við kínverska hermenn þar sem frumstæðum bareflum var beitt. Kínverjar hafa ekki gefið upp upplýsingar um mannfall í átökunum en Indverjar sögðust sannfærðir um að minnst 43 kínverskir hermenn hefðu fallið eða særst alvarlega.

Þetta var í fyrsta sinn sem mannfall var á landamærunum í 45 ár.

Í frétt Times of India segir að aftur hafi komið til átaka milli hermanna en upplýsingar um mögulegt mannfall liggi ekki fyrir.

Þar segir einnig að Kínverjar hafi neitað að yfirgefa um átta kílómetra langt svæði sem þeir hafi hernumið og byggt þar upp varnir, vegi, brýr og þyrlupalla. Bæði ríkin saka hitt um hernaðaruppbyggingu á svæðinu. Viðræður hafa ekki skilað árangri í deilunni.

Svæðið sem þessi tvö fjölmennustu ríki heims deila um er í Karakoram fjöllunum og nánar tiltekið við Pangongvatn. Þessi átök sem Indverjar vísa í áttu sér stað við vatnið, eins og átökin í júní.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.