Innlent

Viðar fyrir samninga­fundinn: „Boltinn er svo­lítið hjá borginni“

Atli Ísleifsson skrifar
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segist vera jákvæður fyrir fundinn og reiðubúinn að hlusta.
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segist vera jákvæður fyrir fundinn og reiðubúinn að hlusta. vísir/vilhelm

Samninganefndir Eflingar og Reykjavíkurborgar koma saman á fundi hjá sáttasemjara klukkan níu í dag. Að óbreyttu hefjast verkfallsaðgerðir Eflingarfólks í borginni í hádeginu á morgun.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir í samtali við Vísi að samninganefnd Eflingar fari jákvæð inn á fundinn og vera reiðubúna hlusta. „Boltinn er svolítið hjá borginni eins og staðan er núna.“

Hann segir ekki mjög líklegt að samningar muni nást í dag en að samninganefndin bindi vonir við að samninganefnd borgarinnar „komi með einhvern viðræðugrundvöll“. Sjái Eflingarfólk það verði það svo skoðað í kjölfarið hvort gripið verði til þess að fresta verkfallsaðgerðum. Hann á þó von á fremur stuttum fundi.

Sjá einnig: Svona verða á­hrifin af verk­falls­að­gerðum Eflingar­fólks í borginni

Ljóst er að fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir muni hafa umtalsverð áhrif á borgarbúa. Komi til verkfalla er ljóst að það mun hafa mest áhrif á „leikskóla- og velferðarþjónustu á vegum borgarinnar auk sorphirðu, vetrarþjónustu og umhirðu borgarlandsins,“ líkt og segir í tilkynningu frá borginni sem barst fyrir helgi.

Starfsfólk Eflingar telur um 1.850 af um níu þúsund starfsmönnum borgarinnar. Eflingarfólk starfar í fjölbreyttum störfum á 129 starfsstöðum hjá Reykjavíkurborg.  Um þúsund starfa á skóla- og frístundasviði, þar af mikill meirihluti í leikskólunum. Þá starfa um sjö hundruð úr Eflingu við velferðarþjónustu borgarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×