Sport

Fékk skammir í hattinn fyrir að biðja boltastelpu að taka utan af banana fyrir sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bananamaðurinn Benchetrit.
Bananamaðurinn Benchetrit. vísir/getty

Dómari jós skömmum yfir franska tenniskappann Elliot Benchetrit eftir að hann bað boltastelpu að taka utan af banana fyrir sig.

Atvikið átti sér stað í leik Benchetrits og Dmitry Popko á Opna ástralska meistaramótinu á sunnudaginn.

Í hléi í lokasettinu gekk boltastelpan til Benchetrits með banana og hann bað hana um að taka utan af honum fyrir sig.

Dómari leiksins, John Blom, var allt annað en sáttur við Benchetrit og sagði að stelpan væri ekki þrællinn hans. Hann þurfti því að gjöra svo vel að taka sjálfur utan af banananum. Atvikið má sjá hér fyrir neðan.



Netverjar gagnrýndu Benchetrit en hann sagði ekkert óeðlilegt við bón sína. Stelpan hafi meira að segja tekið utan af banana fyrir sig fyrr í leiknum.

Benchetrit kvaðst hissa á ummælum dómarans og viðbrögðunum við atvikinu á samfélagsmiðlum. Þar hefði fólk tjáð sig án þess að þekkja málavöxtu.

Meðal þeirra sem gagnrýndu Benchetrit var tennisgoðsögnin Martina Navratilova. „Hvað næst, vínber?“ skrifaði hún og hrósaði viðbrögðum dómarans.

Benchetrit sigraði Popko, 4-6, 6-2, 6-3, en tapaði svo fyrir Japananum Yūichi Sugita í næstu umferð, 6-2, 6-0, 6-3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×