Innlent

Upp­götvuðu nýja þörunga­tegund við Ís­landsst­endur

Atli Ísleifsson skrifar
Flekkir af rauðleitri klóblöðku neðan til í fjörunni á utanverðum Reykjanesskaga.
Flekkir af rauðleitri klóblöðku neðan til í fjörunni á utanverðum Reykjanesskaga. Mynd/Hafró/Karl Gunnarsson

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar, auk vísindamanna við Náttúrugripasafnið í Lundúnum, uppgötvuðu nýlega áður óþekkta tegund rauðþörunga hér við land.

Þetta kemur fram á heimasíðu Hafró. Þar segir að þörungurinn nefnist klóblaðka, sé blaðlaga og geti orðið 30 til 40 cm langur og 10 til 25 cm breiður.

„Hann er áberandi í fjörum, sérstaklega við Suðvesturland en finnst einnig víða við vesturströndina, við Vestfirði og hefur fundist á einum stað við Norðurland. Þörungurinn fannst fyrst, við Öndverðarnes, yst á Snæfellsnesi, um aldamótin 1900. Þörungurinn var þá talinn tilheyra áður þekktri tegund. Það reyndist síðar rangt.

Í ljós kom að hér var um að ræða algerlega óþekkta tegund sem á sína nánustu ættingja í Kyrrahafi. Tegundin hefur hlotið nafnið Schizymenia jonssonii á latínu til minningar um Sigurð Jónsson þörungafræðing og á íslensku er hún nefnd klóblaðka,“ segir í tilkynningunni á vef Hafró.

Klóblaðka er sagður góður matþörungur og að í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknarstofnunar við Grindavík séu um þessar mundir í gangi tilraunir með ræktun klóblöðku til matar, í samvinnu við Hyndlu ehf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×