Börsungar töpuðu á Mestalla

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Valencia hafði góða ásæðu til að fagna vel og innilega í dag.
Valencia hafði góða ásæðu til að fagna vel og innilega í dag. Vísir/Getty

Spánarmeistararnir Barcelona heimsóttu bikarmeistara Valencia á Mestalla í dag. Líkt og í bikarúrslitunum á síðustu leiktíð höfðu Valencia betur, að þessu sinni 2-0. Raunar hafa Börsungar aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum gegn Valencia eftir úrslit dagsins.

Börsungar byrjuðu leikinn brösuglega og fengu dæmda á sig vítaspyrnu þegar aðeins 12. mínútur voru liðnar en Marc-Andre Ter Stegen gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu Maxi Gomes. Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik eftir þetta en Barcelona átti ekki skot á markrammann í öllum hálfleiknum.

Strax í upphafi síðari hálfleik komust heimamenn yfir þegar skot Maxi Gomez fór í Jordi Alba og þaðan í netið. Óverjandi fyrir Ter Stegen í marki Börsunga. Gestirnir gerðu hvað þeir gátu til að koma sér aftur inn í leikinn en allt kom fyrir ekki og á 77. mínútu bætti Maxi Gomes upp fyrir að hafa klúðrað vítaspyrnu í fyrri hálfleik.

Hann batt þá endahnútinn á frábæra sókn Valencia en þeir sundurspiluðu vörn Barcelona með snöggu sem endaði með því að Gomez fékk sendingu úti vinstra megin í vítateig Börsunga og lagði knöttinn snyrtilega í netið með hægri fæti. Staðan orðin 2-0 og reyndust það lokatölur leiksins.

Alls áttu Börsungar 900 heppnaðar sendingar ásamt því að vera með knöttinn 76% af leiknum án þess þó að skapa sér opið marktækifæri.

Barcelona er enn á toppi deildarinnar með 43 stig, líkt og Real Madrid, sem á leik til góða. Valencia eru komnir upp í 5. sæti deildarinnar með 34 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira