Fótbolti

Guð­björg í hjart­næmu við­tali: „Erfiðara en öll meiðsli sem ég hef lent í“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðbjörg hefur leikið yfir 60 landsleiki fyrir Ísland.
Guðbjörg hefur leikið yfir 60 landsleiki fyrir Ísland. vísir/vilhelm

Guðbjörg Gunnarsdóttir, markvörður Djurgården í Svíþjóð og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, er í áhugaverðu viðtali við Twitter síðu kvennaknattspyrnu UEFA.

Í viðtalinu fer Guðbjörg yfir það hvernig það er að vera íþróttakona á hæsta stigi og reyna eignast fjölskyldu.

Guðbjörg greindi frá því í júlí að hún væri ólétt af tvíburum. Kærasta hennar er Mia Jalkerud, samherji hennar hjá Djurgården.

„Ég er Íslendingur og hef verið í marki síðan ég var lítil. Ég er nú ólétt af tvíburum og það hefur tekið mig og maka minn þrjú ár í gegnum tæknifrjóvgun,“ sagði Guðbjörg.

Hún segir að tæknifrjóvgunin hafi ekki alltaf gengið sem skildi.

„Það var mjög erfitt að ganga í gegnum þetta bæði andlega og líkamlega því ég hef falið það þegar þetta hefur mistekist á meðan ég hef verið að spila fótbolta á hæsta stigi.“





Guðbjörg var lengi frá vegna meiðsla í hásin en sneri aftur í lið Djurgården og íslenska landsliðið í vor.

„Mér fannst þetta erfiðara en öll meiðsli sem ég hef lent í en í hvert skipti reyndi ég að einbeita mér að næsta leik. Fótboltinn hefur gefið mér styrk og verið stórt partur af lífi mínu frá því ég var ung.“

Hún segir að fótboltinn hafi hjálpað sér mikið.

„Ég spila fótbolta af svo mörgum ástæðum en ég myndi segja að spennan og adrenalínið og það að vinna eitthvað með vinum þínum sem þú æfir með á hverjum degi sé aðalástæðan.“

„Ég hef einnig eignast marga af mínum bestu vinum í gegnum fótbolta og ég nýt þess enn meira því eldri sem ég verð. Að vera sterk þýðir fyrir mig að vera sterk andlega. Sem markvörður er þín andlegi styrkur allt.“

Markverðir fá oft á sig mikla gagnrýni en Guðbjörg segir að hún reyni að nýta sér mistök sín.





„Ég hugsa alltaf um það þegar ég geri mistök að það skiptir máli hvernig ég bregst við. Allir markverðir gera mistök svo það er mikilvægt að þetta komist ekki inn í höfuðið hjá þér.“

Guðbjörg er með einföld skilaboð að lokum.

„Ég vona að saga mín að verða foreldri, sem getur þýtt að þú verður ekki í íþróttinni í smá tíma, verði til þess að samtalið um konur í íþróttum sem vilji stofna fjölskyldu verði opnara í framtíðinni,“ sagði Guðbjörg að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×