Lífið

J.K. Rowling á Vest­fjörðum

Atli Ísleifsson skrifar
J.K . Rowling ferðast með fjölskyldu sinni á lúxussnekkjunni Calypso.
J.K . Rowling ferðast með fjölskyldu sinni á lúxussnekkjunni Calypso. Getty

Breski rithöfundurinn J.K. Rowling dvelur nú ásamt fjölskyldu sinni á Íslandi en hún ferðast um í lúxussnekkjunni Calypso.

Fréttablaðið greinir frá því að Rowling, sem gerði garðinn frægan fyrir sögur sínar um galdrastrákinn Harry Potter, hafi heimsótt Galdrasafnið á Hólmavík í gær.

Calypso, sem skráð er á Cayman-eyjum og er leigð út til ríkra einstaklinga, var að finna við Drangsnes í nótt en snekkjunni er nú siglt norður af Hornströndum.

Snekkjan kom fyrst til Reykjavíkur þann 27. júlí eftir að hafa verið siglt frá Nýfundnalandi í Kanada, en Rowling og föruneyti kom til landsins í einkaflugvél.

Rowling er ekki eini heimsfrægi Bretinn sem hefur sótt Vestfirði heim í sumar, en stjörnukokkurinn Gordon Ramsey mætti þangað ásamt tökuliði fyrr í sumar eins og frægt er orðið.

Vísir sagði frá því í byrjun mánaðar að snekkjan sé rúmlega 61 metri á lengd og bjóði upp á svefnpláss fyrir tólf farþega. Hún var byggð árið 2003 og gerð upp árið 2017. Starfsfólk snekkjunnar telur alls fjórtán manns auk skipstjóra.

Á þilfari snekkjunnar er að finna heitan pott, en undir niðri má meðal annars finna bíósal og líkamsræktartæki. Þá er að finna ýmis minni sjófarartæki um borð, til dæmis sæþotur, sem og köfunarbúnaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×