Innlent

Smitrakningu að mestu lokið

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Tveir greindust með kórónuveiruna innanlands í gær í tveimur aðskildum tilfellum. Fjörtíu manns eru í sóttkví vegna þessa en ekki hefur tekist að finna upprunalegan smitbera.

Smitin tvö sem greindust í gær tengjast ekki. Í öðru málinu hafa innan við tíu manns verið settir í fjórtán daga sóttkví en á þriðja tug í hinu málinu. Þar hafði einstaklingur tekið þátt í frjálsíþróttamóti í Hafnafirði um síðustu helgi, en 200 keppendur voru skráðir á mótið.

Ekki er útilokað að fleiri þurfi að fara í sóttkví vegna innanlandssmitanna tveggja að sögn yfirmanns smitrakningarteymis almannavarna.

Hinir smituðu eru karlmenn á tvítugs- og þrítugsaldri. Þeir eru með einkenni og komnir í einangrun. Vísbendingar eru um að annar hinna smituðu hafi verið í tengslum við fólk sem kom erlendis frá. Smitrakningu er að mestu lokið en ekki hefur tekist að finna upprunalegan smitbera.

„Við erum ekki alveg búin að klára þá rakningu og erum að vinna að því að geta varpað einhverju ljósi á það. Vonumst til að geta gert það,“ sagði Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymis almannavarna.

„Er víst að það takist?“

„Nei það er ekki víst en við reynum,“ sagði Jóhann.

Því er ekki hægt að útiloka að hinn smitaði sé úti í samfélaginu.

Kórónuveiran á bráðamótökunni í Fossvogi

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir sagði í samtali við fréttastofu í dag að líklegt sé að smitið komi erlendis frá í ljósi þess að þrjár vikur eru síðan innanlandssmit greindist síðast á landinu. Hann sagði jafnframt að um mögulega hópsýkingu væri að ræða og biðlar til fólks að passa upp á einstaklingsbundnar sýkingarvarnir.


Tengdar fréttir

Ekki vitað hver upprunalegur smitberi er

Tvö innanlandssmit greindust á landinu í gær í tveimur aðgreindum málum. Um er að ræða fyrsta innanlandssmitið sem greinist síðan 2. júlí og er möguleiki á hópsýkingu. Unnið er að smitrakningu. 

Tvö innan­lands­smit greindust í gær

Tveir greindust hér á landi í gær í tveimur aðgreindum málum. Báðir einstaklingar eru með einkenni Covid-19 og eru nú komnir í einangrun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×