Sport

Frjálsíþróttakeppandi með veiruna - Meistaramótið fer fram um helgina

Sindri Sverrisson skrifar
ÍR-ingar urðu stigameistarar á MÍ 15-22 ára og yngri. Taka má fram að ekki liggur fyrir í hvaða liði hinn smitaði keppandi er.
ÍR-ingar urðu stigameistarar á MÍ 15-22 ára og yngri. Taka má fram að ekki liggur fyrir í hvaða liði hinn smitaði keppandi er. mynd/frí

Á þriðja tug einstaklinga eru komnir í sóttkví eftir að þátttakandi á meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum, 15-22 ára, um síðustu helgi greindist með kórónuveiruna.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu Frjálsíþróttasambands Íslands. Þar segir að þeir einstaklingar sem nú séu komnir í sóttkví hafi verið taldir í hááhættu að mati sóttvarnalæknis og rakningarteymis, en aðrir þátttakendur og starfsmenn mótsins eru hvattir til að gæta varúðar og huga að einstaklingsbundnum sóttvörnum. Leiki minnsti vafi á því hvort þeir hafi smitast séu þeir beðnir um að hafa samband við heilsugæslu eða hringja í síma 1700.

Meistaramót fullorðinna fer fram á Akureyri um helgina og þó að nokkrir keppendur missi af því móti, þar sem þeir eru nú komnir í sóttkví, segir Guðmundur Karlsson framkvæmdastjóri FRÍ að mótið muni fara fram.

„Við höldum okkar striki með meistaramótið eins og staðan er akkúrat núna. Við erum bara að treysta á smitrakninguna og höfum ekkert annað í höndunum,“ segir Guðmundur sem áætlar að af þeim sem komnir séu í sóttkví hafi verið um 10-12 keppendur á mótinu í Kaplakrika um síðustu helgi.

„Við höfum með mótshöldurum fyrir norðan skerpt á öllum aðgerðum til að stuðla að smitvörn. Við viljum sýna fyllstu aðgát, meðal annars með því að spritta öll kastáhöld á milli kasta og fleira slíkt,“ segir Guðmundur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.