Fréttir

Kostar ráðherra minnst 52 milljónir að losna við Ólaf Helga

Jakob Bjarnar skrifar
Eins og fram hefur komið hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra farið þess á leit við Ólaf Helga Kjartansson lögreglustjóra að hann láti af störfum. Sé litið til fordæma liggur fyrir að það mun kosta ríkissjóð sitt.
Eins og fram hefur komið hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra farið þess á leit við Ólaf Helga Kjartansson lögreglustjóra að hann láti af störfum. Sé litið til fordæma liggur fyrir að það mun kosta ríkissjóð sitt. vísir/vilhelm

Laun lögreglustjórans á Suðurnesjum nema 1.450.000 kr. á mánuði og þar af skal greiðsla fyrir yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir nema 290.000 kr. á mánuði. Þetta þýðir að ef gengið verður frá starfslokum Ólafs Helga Kjartanssonar lögreglustjóra frá og með að telja í haust fær hann greiðslu sem nemur 52.200.000 krónur.

Eins og fram hefur komið hefur Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir dóms­málaráðherra lagt það til við Ólaf Helga Kjart­ans­son, lög­reglu­stjóra á Suður­nesj­um, að hann víki úr starfi lög­reglu­stjóra. 

Embættið vart starfhæft

Innan embættisins hefur ástandinu verið lýst þannig að ekki verði við unað. Horft er til ráðherra með að höggva á hnútinn. Fjölmargir starfsmenn eru nú í veikindaleyfi, þeirra á meðal trúnaðarmaður starfsmanna, mannauðsstjóri og Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur embættisins því hefur verið haldið fram að hún leiði hóp fjórmenninga, sem í gögnum sem fréttastofa hefur undir höndum, er kallaður „matarklúbburinn“, sem vinnur að því leynt og ljóst að koma lögreglustjóra frá.

Auk Öldu Hrannar er um að ræða þau Helga Þ. Kristjánsson mannauðsstjóra, Bjarney Annelsdóttur yfirlögregluþjón og Pétur Ó. Jónsson fjármálastjóri. Þau hafa vísað þeim ásökunum alfarið á bug en ekki viljað tjá sig um málið umfram það.

Um miðjan maí fór trúnaðarmaður embættisins með tvær kvartanir um meinta ósæmilega framkomu lögreglustjóra og lagði fram í dómsmálaráðuneytinu. Eftir það verður loft allt lævi blandið innan embættisins og ásakanir ganga á milli fylkinga.

Ólafur Helgi á þrjú ár eftir í embætti

Ólafur Helgi hefur sagt í samtali við fréttastofu að hann telji mikilvægt að friður ríki um starfsemi embættsins. Ólafur Helgi verður 67 ára í haust. Í fyrra var skipunartími hans sem lögreglustjóri á Suðurnesjum framlengdur. Skipunartími er til fimm ára en hins vegar verður Ólafur Helgi reglum samkvæmt að láta af störfum þegar hann verður sjötugur. 

Hér er því um að tefla þrjú ár og ef Áslaug Arna vill losna við hann þýðir það að öllum líkindum starfslokasamning sem kveður á um full laun til sjötugs nettó, aukreitis við það sem hann á rétt á. Við það bætast svo launatengd gjöld. Með einföldum útreikningi, sem eru mánaðarlaunin sinnum 12 mánuðir sinnum 3 ár nemur sú upphæð 52.200.000 krónur.

Dómsmálaráðuneytið áætlar að kostnaðarmat starfslokasamnings Haraldar Johannessen, fráfarandi ríkislögreglustjóra, hljóði upp á rúmar 47 milljónir króna án launatengdra gjalda. Með launatengdum gjöldum er kostnaðurinn 56,7 milljónir króna.

Eins og áður sagði eru forsendurnar sem hér er lagt upp með þær að Ólafur Helgi haldi fullum launum út skipunartíma sinn. Ekki er þó loku fyrir það skotið að ef um verður að ræða að hann lætur af störfum verði komist að samkomulagi eins og gert var í tilfelli Haraldar. Full laun Haraldar út skipunartímann hefðu átt að vera um 105 milljónir króna með launatengdum gjöldum. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×