Lífið

Valli Sport kominn í svínarækt

Stefán Árni Pálsson skrifar
Valgeir ásamt samstarfsfélaga sínum í Hrísey.
Valgeir ásamt samstarfsfélaga sínum í Hrísey.

„Við ákváðum að slá til og prufa þrjár grísi í sumar og sjá hvernig þetta gengur. Grísirnir eru núna bara rétt að venjast kofanum sínum en verða annars lausir. Þeir elska kerfil og það er nóg af honum í Hrísey,“ segir Valgeir Magnússon, betur þekktur sem Valli Sport, en fyrirtæki hans Landnámsegg hefur farið af stað með nýtt tilraunverkefni sem er lausagöngusvín.

„Svo er kofinn þeirra skjólið og þeir munu gera farið inn og út að vild. Miðað við hvað margir krakkar komu til að fylgjast með þegar grísirnir komu til eyjarinnar, þá eigum við von á að þetta muni vekja lukku á sumrin. Nú þegar kemur mikið af fólki til að sjá hænurnar fyrir utan búið, þetta er að verða eins og smá dýragarður, sá fyrsti í Hrísey svo við vitum.“

Valli segir að veitingastaðurinn Verbúðin 66 ætli að láta af hendi matarafganga svo svínin geti nært sig.

„Það verður lítið um úrgang í Hrísey, þetta er stanslaus hringrás og allt vistvænt. Við erum ekki byrjaðir að hugsa um kjötframleiðslu, bara svona fyrir okkur til að byrja með. Svo veit maður aldrei hvernig þessi tilraun heppnast,“ bætir Valli við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×