Skondið mark fullkomnaði þrennu Sterling í öruggum sigri á Brighton

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sterling skoraði þrennu í kvöld. Þriðja markið var með því skondnara sem sést hefur lengi.
Sterling skoraði þrennu í kvöld. Þriðja markið var með því skondnara sem sést hefur lengi. EPA-EFE/Adam Davy

Manchester City vann þægilegan 5-0 útisigur á Brighton & Hove Albion í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Það tók lærisveina Pep Guardiola rúmlega tuttugu mínútur að brjóta ísinn en þá kom Raheem Sterling gestunum yfir eftir sendingu Gabriel Jesus. Áður en fyrri hálfleik var lokið hafði Jesus tvöfaldað forystu City.

Sterling var ekki lengi að koma City í 3-0 eftir að síðari hálfleikur hófst en hann skoraði sitt annað mark á 53. mínútu leiksins. Að þessu sinni eftir sendingu Riyad Mahrez. Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Bernardo Silva.

Það var svo þegar tæplega tíu mínútur voru eftir sem Raheem Sterling fullkomnaði þrennuna með einu skondnasta marki tímabilsins. Hann virtist þá hafa tapað boltanum sem fór upp í loftið er Sterling féll til jarðar. Boltinn fór hins vegar í höfuðið á Sterling og milli fóta Matt Ryan í marki Brighton.

Litlu máli skipti þó Dan Burn reyndi að bjarga málunum, boltinn endaði í netinu og Sterling kominn með þrjú. 

Lokatölur 5-0 og sigur City eins öruggur og getur orðið þar sem Brighton átti aldrei skot á markið. Var þetta annar 5-0 sigur City í röð en liðið lagði Newcastle United með sömu markatölu í síðasta leik.

City er sem fyrr í öðru sæti úrvalsdeildarinnar með 72 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Brighton eru í 15. sæti með 36 stig og geta enn - tölfræðilega séð - fallið en líkurnar á því eru litlar sem engar.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.