Innlent

Reiði vegna við­tals um landa­mæraefir­lits­bíl: „Ekki ætlunin hjá lög­reglunni að til­taka tvö þjóð­erni“

Sylvía Hall skrifar
Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Tryggvi Páll

Landamæralit lögreglunnar beinist að öllum þjóðernum sem lögreglunni er skylt að hafa eftirlit með að sögn Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Mikil umræða hefur skapast um frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem fjallað var um eftirlitið og sérstaklega tilgreint eftirlit með Albönum og Rúmenum.

Í fréttinni var farið yfir tilkomu sérhannaðs bíls sem sinnir landamæraeftirliti og hvernig hann verður nýttur. Þá kemur einnig fram að frá því að bíllinn hafi verið tekinn í notkun um miðjan maí hafi um það bil hundrað manns verið teknir til athugunar, en aðeins átta reyndust vera hér ólöglega.

Halla segir lögregluþjóninn sem var til viðtals hafa talið upp fleiri ríki en þessi tvö hafi verið tekin sem dæmi. Þetta séu vissulega þjóðerni sem eftirlit er haft með en þau hafi „afskipti af miklu fleirum“.

„Hann taldi upp fullt af þriðja ríkis borgurum en fréttamaðurinn velur að setja tvo sem dæmi, en það eru bara miklu fleiri sem eru í þessu innra eftirliti þótt það komi ekki fram í fréttinni. Það var ekki ætlunin hjá lögreglunni að tiltaka einhver tvö þjóðerni,“ segir Halla Bergþóra í samtali við Vísi.

„Þetta er verkefni lögreglu, að hafa eftirlit með útlendingum, og þetta innra eftirlit er skylda okkar vegna Schengen-reglna. Þetta er hluti af því.“

Hún segir bílinn aðallega hugsaðan til þess að sinna landamæraeftirliti og auðvelda framkvæmdina. Nefnir hún þar til að mynda eftirlit á Reykjavíkurflugvelli og eftirlit með skemmtiferðaskipum, sem verði „aðalstarf“ bílsins.

„Svo getur hann líka nýst í innra landamæraeftirliti. Þetta er bara samkvæmt Schengen-reglunum.“

„Afhjúpandi fyrir ömurlega stefnu stjórnvalda í garð útlendinga“

Umrædd frétt hefur vakið mikla reiði á samfélagsmiðlum, þá sérstaklega orðalagið og það að fólk sé „tekið upp í bílinn“ til þess að athuga hvort það sé hér löglega. Þannig sé fólk valið eftir útliti sínu og þannig athugað hvort þau séu Íslendingar eða ekki, sem sé svokallað racial profiling.

Í viðtalinu kemur einnig fram að ekki hafi verið unnt að senda fólk úr landi vegna kórónuveirufaraldursins, en við afléttingu ferðatakmarkana verði „hnippt í þá“ og þeim „ýtt út“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×