Sport

Annie Mist segir fólk reitt og sárt: „Held að hann verði að hlusta“

Sindri Sverrisson skrifar
Annie Mist Þórisdóttir vann heimsleikana í Crossfit árin 2011 og 2012.
Annie Mist Þórisdóttir vann heimsleikana í Crossfit árin 2011 og 2012. mynd/@anniethorisdottir

Annie Mist Þórisdóttir, tvöfaldur heimsmeistari í Crossfit, segir að íþróttin verði alltaf til staðar en það sé aðeins spurning hvort það verði áfram undir sama nafni, eftir rasísk ummæli Greg Glassman, stofnanda og framkvæmdastjóra Crossfit-samtakanna.

Fjölmargar Crossfit-stöðvar í heiminum hafa slitið samstarfi við Crossfit-samtökin vegna Glassman. Hann svaraði Twitter-færslu Institute for Health Metrics and Evaluation, þess efnis að rasismi væri heilbrigðisvandamál, með því að skrifa „Það er FLOYD-19“, og vísa þannig í Covid-19 faraldurinn og lát George Floyd.

Glassman hefur beðist afsökunar á orðum sínum en það gæti dugað skammt og ljóst að kallað er eftir því að hann hverfi úr stjórn. Íþróttavöruframleiðandinn Reebok hefur ákveðið að slíta samstarfi sínu við Crossfit-samtökin og á meðal þeirra stöðva sem snúið hafa baki við samtökunum er Crossfit Reykjavík, þar sem Annie Mist er ein af eigendunum. Í viðtali við RÚV segir hún fólk hafa viljað sýna með skýrum hætti að Glassman nyti ekki stuðnings og að orð hans bæri að fordæma.

„Þetta er eitthvað svo ótrúlega persónulegt fyrir manni. Ég er persónulega náttúrulega búin að leggja blóða, svita og tár í þetta og þykir svo ofboðslega vænt um þessa íþrótt. Það er sama í Crossfit Reykjavík, við erum búin að vera starfandi í mörg ár og maður vill vera í forsvari fyrir það sem Crossfit á að vera að standa fyrir. Við erum í rauninni að sýna það að við viljum ekki samþykkja að standa fyrir neitt þegar kemur að rasisma eða nokkurs konar mismunun á neinn máta,“ sagði Annie Mist við RÚV.

„Hann [Glassman] þarf klárlega að hlusta á samfélagið og það er það flotta við CrossFit, sem maður er að sjá, að fólk er reitt, fólk er sárt en það eru eiginlega allir að koma saman og það sem maður sér standa upp úr er þetta samfélag, þessi stuðningur, að vinna saman að einhverju. Ég held að hann verði að hlusta á það og það verða að vera einhvers konar breytingar,“ sagði Annie Mist.


Tengdar fréttir

Katrín Tanja: Skammast mín ákaflega mikið

Íslenska CrossFit drottningin Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur ekki aðeins verið tilbúin að tjá sig um og styðja réttindabaráttu svartra heldur var hún einnig tilbúin að gagnrýna harðlega forystu CrossFit samtakanna fyrir þeirra rasísku viðbrögð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×