Enski boltinn

Kompany gæti snúið aftur til Man. City

Sindri Sverrisson skrifar
Vincent Kompany kvaddi Manchester City sem Englandsmeistari.
Vincent Kompany kvaddi Manchester City sem Englandsmeistari. vísir/getty

Vincent Kompany yfirgaf Manchester City síðasta sumar eftir ellefu tímabil hjá félaginu en hann gæti snúið aftur sem aðstoðarþjálfari.

Þetta segir Sky Sports. Kompany hélt heim til Belgíu sem Englandsmeistari í fyrra og gerðist spilandi aðstoðarþjálfari Anderlecht. Samningur hans við Anderlecht, sem hafnaði í 8. sæti belgísku úrvalsdeildarinnar á styttri, nýafstaðinni leiktíð, gildir til sumarsins 2022. Hann gæti hins vegar verið á leið aftur til City.

Samkvæmt Sky Sports hefur City „opnað dyrnar“ fyrir Kompany til að hann geti snúið aftur til félagsins. Hinn 34 ára gamli miðvörður á að hafa rætt við Pep Guardiola og þó að ekkert tilboð hafi verið lagt fram í kjölfarið var honum gert ljóst að hann væri velkominn aftur.

Manchester City missti aðstoðarþjálfara í desember þegar Mikel Arteta tók við Arsenal. City mætir einmitt Arsenal 17. júní þegar keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst að nýju eftir hléið vegna kórónuveirufaraldursins.

Kompany varð fjórum sinnum Englandsmeistari með City, vann tvo bikarmeistaratitla og fjóra deildarbikarmeistaratitla, eftir að hafa komið frá Hamburg árið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×