Innlent

„Mig langar ekki að hugsa um hvað hefði getað gerst“

Hrund Þórsdóttir skrifar
Sem betur fer slapp Róbert vel í þetta sinn en mamma hans segist ekki vilja hugsa um hvað hefði getað gerst.
Sem betur fer slapp Róbert vel í þetta sinn en mamma hans segist ekki vilja hugsa um hvað hefði getað gerst.
Hinn níu ára gamli Róbert Örn Jónsson slapp með skrekkinn í gær, þegar hann festist í snjóhúsi nærri heimili sínu í Grafarholti.

„Þetta er snjóhús sem krakkarnir í hverfinu höfðu búið til síðustu daga úr stórum skafli, snjóruðningi. Róbert var að leika sér í húsinu þegar hann datt með hnéð á undan sér og hné og hæll skorðuðust þannig að hann sat pikkfastur í botni snjóhússins,“ segir Birna Pálsdóttir, móðir Róberts. „Hann sat bara fastur þarna innan í kúlunni á þannig stað að það sást ekkert til hans utan frá.“

Birna segir Róbert líklega hafa verið fastan í um hálfa klukkustund.

„Hann kallaði á hjálp og sem betur fer komu tvær konur þarna að. Þær náðu ekki að losa hann svo önnur þeirra hringdi í 112 og hin var svo yndisleg að bíða með honum þar til slökkviliðið kom á staðinn.“

Þórir Steinarsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, fór í útkallið. Hann segir börnin hafa búið til snjóhús með göngum innan í, sem hafi verið svipuð að þvermáli og búkur Róberts.

„Hann fór niður um eitt gatið með annan fótinn undir sig svo þegar hann var kominn niður í göngin festist hann og komst hvorki upp né niður. Snjórinn í skaflinum hafði harðnað svo honum gekk ekkert að losa sig,“ segir Þórir. „Við náðum að losa hann með því að moka frá honum og hann var orðinn dálítið kaldur. Hann settist í sjúkrabílinn í smástund og hlýjaði sér og svo kom mamma hans og sótti hann. Hann var dálítið stirður í fætinum en kom alheill út úr þessu.“

Umrætt snjóhús um það leyti sem slökkvlið var á vettvangi. Það var svo eyðilagt síðar í gær.Kolbrún Dögg Arnardóttir

„Hann var mjög kaldur þegar ég fékk hann í hendurnar“

Birna er þakklát fyrir að ekki fór verr. „Hann var í dálitlu sjokki í gær og ég líka. Hann hafði auðvitað kallað á hjálp og grátið mikið og hann var mjög kaldur þegar ég fékk hann í hendurnar. Það er allt í lagi með hann, sem betur fer, en mig langar ekki að hugsa um hvað hefði getað gerst hefði hann verið fastur þarna lengi,“ segir Birna.

„Það hafa margir haft samband við okkur og ég er mjög þakklát fyrir hvað við eigum yndislega nágranna. Þeir fóru líka strax út og brutu niður snjóhúsið eftir þetta.“Þórir telur ekki hafa verið mikla hættu á ferðum í þetta sinn.

„Auðvitað væri samt ekki gott að vera fastur úti í langan tíma. Sem betur fer gerðist þetta á fjölförnu svæði. Það er lítil hætta á að snjóhús falli saman þegar þau eru búin að blotna og harðna en því fylgir auðvitað hætta þegar svona leiksvæði eru við umferðargötur. Umferðin getur verið hættuleg í þessu samhengi, ekki síst ef snjómoksturstæki eru ennþá við vinnu,“ segir hann.

Þórir segir nágrannakonu Róberts hafa beðið með honum þar til hjálpin barst.

„Það er mikilvægt því við lendum alveg í að fólk hringir og tilkynnir eitthvað, en heldur svo bara áfram ferð sinni. Við lendum oft í því. Það finnst mér vont því það hjálpar okkur svo mikið að fá nánari upplýsingar um slys, til dæmis upp á hvaða bjargir þarf að senda á staðinn. Þarna getur skilið á milli lífs og dauða. Allar upplýsingar sem við fáum frá slysstað eru hjálplegar.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.