Innlent

Dragúldinn búrhval rak í höfnina Grímseyingum til mikillar ógleði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Grímseyingar hafa þurft að glíma við búrhvalshræið um helgina
Grímseyingar hafa þurft að glíma við búrhvalshræið um helgina Mynd/Anna María Sigvaldadóttir

„Hann er skemmtilega úldinn,“ segir Anna María Sigvaldadóttir, íbúi í Grímsey, um búrhvalshræ sem rak í höfnina í Grímsey um helgina. Mikla ólykt lagði yfir hafnarsvæðið.

Íbúar í Grímsey höfðu tekið eftir því fyrir helgi að hræið væri á floti í grennd við eyjuna. Þegar þeir vöknuðu á laugardagsmorgunin var búrhvalshræið komið inn í höfnina.

„Það er var ekki verandi nálægt honum þarna niður frá. Þeir voru að taka neðri kjálkann úr honum og það var verið að æla á bryggjunni, lyktin var þannig,“ segir Anna María í samtali við Vísi.

Í gær hafði hvalurinn rekið þangað sem Grímseyjarferjan leggur að og því þótti ekki stætt á öðru en draga hvalinn frá höfninni.

„Það er búið að draga hann út fyrir, hann hangir á hafnargarðshausnum en það á að draga hann út fyrir seinna í dag, langt frá eyjunni,“ segir Anna María.

Lyktin hangir hins vegar enn þá við höfnina.

„Ég fór áðan að kveikja á lyftaranum að taka á móti ferjunni og það er viðbjóður, þótt að hann sé farinn,“ segir Anna María. „Þetta er hálfógeðslegt, hann er svo úldinn.“

Hræið lyktar mjög illa að sögn GrímseyingaMynd/Anna María Sigvaldadóttir

Sjóarinn Svafar Gylfason hefur fengið það verkefni að draga hræið á haf út eftir að leyfi fengust frá þar til bærum yfirvöldum. Stefnt er á að Grímseyingar verði lausir við búrhvalinn seinnipartinn í dag.

„Manni finnst ekkert spennandi að hafa þetta á reki hérna,“ segir Svafar í samtali við Vísi, en hann hefði kosið að Landhelgisgæslan hefði mætt á svæðið til að eyða hræinu.

„Það er stórhættulegt að hafa hann á reyki hérna. Ef að þú lendir á þessu á hraðbát á tuttugu mílum þá þarf ekkert að spyrja að því.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×