Sport

Iðkendur geti ekki krafist skaðabóta frá íþróttafélögum

Sindri Sverrisson skrifar
Iðkendur á öllum aldri komast ekki á æfingar þessa dagana vegna samkomubanns.
Iðkendur á öllum aldri komast ekki á æfingar þessa dagana vegna samkomubanns. mynd/s2s

Hefðbundið, skipulagt íþróttastarf liggur niðri hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins en iðkendur eiga ekki rétt á skaðabótum frá íþróttafélögunum af þeim sökum.

Þetta segir í tilkynningu frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og Ungmennafélagi Íslands. ÍSÍ og UMFÍ hafa leitað sér ráðgjafar varðandi endurgreiðslur æfingagjalda og samkvæmt þeirri ráðgjöf eru þær fordæmalausu aðstæður sem nú eru uppi „dæmi um ytri atvik sem ekki voru fyrirséð og ekki unnt að koma í veg fyrir“. Þess vegna teljist það ekki vanefnd gagnvart iðkendum að íþróttafélög geti ekki veitt þá þjónustu sem iðkendur keyptu. Hins vegar sé mælst til þess að koma til móts við iðkendur vegna þess tímabils sem æfingar liggja niðri.

Íþróttafélög landsins hafa mörg hver verið dugleg við að halda iðkendum við efnið með fjar- og heimaæfingum og ÍSÍ og UMFÍ hvetja félögin eindregið til þess. Einnig er mælt með því að félögin lengi æfingatímabil eða bjóði upp á aukaæfingar eða námskeið, eða hugsanlega endurgreiðslu æfingagjalda, að samkomubanni loknu til að koma til móts við iðkendur og forráðamenn þeirra. Það sé þó algjörlega ákvörðun íþróttafélaganna hvernig þau ráðstafi þeim æfingagjöldum sem greidd hafi verið.


Tengdar fréttir

Allt íþróttastarf fellur niður

Mælst er til þess að skipulagt íþróttastarf á Íslandi falli niður í óákveðinn tíma vegna aðgerða til þess að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×