Fótbolti

Fengu 3700 krónur á dag í laun á HM

NordicPhotos/GettyImages

Ensku landsliðskonurnar í knattspyrnu gagnrýna enska knattspyrnusambandið harðlega fyrir að greiða landsliðsmönnunum aðeins um 3700 krónur á dag í laun meðan liðið spilaði á HM í Kína í sumar.

Enska landsliðið náði í fjórðungsúrslit í keppninni en leikmennirnir segjast eiga erfitt með að ná sér í form um þessar mundir af því þeir hafi allir þurft að leggja á sig aukavinnu til að bæta upp tekjutapið sem þeir urðu fyrir á vikunum fimm sem HM stóð yfir.

"Við erum enn að vinna upp tekjutapið tveimur mánuðum eftir mótið," sagði Eniola Aluko, framherji Chelsea.

Talsmaður kvennaknattspyrnunnar hjá enska knattspyrnusambandinu bendir hinsvegar á að aldrei hafi farið meiri peningar í kvennaboltann en einmitt nú - rúmar 550 milljónir króna. Hann segir kvennaknattspyrnuna einfaldlega vera 100 árum á eftir karlaboltanum en fullyrðir að hagur kvenna muni batna á næstu árum.

Aluko segir að þó konurnar séu ekki að biðja um sömu laun og karlarnir, vilji þær njóta sömu kjara og kollegar þeirra í t.d. sænska og bandaríska landsliðinu.

"Okkur finnst við ekki njóta virðingar því margir af leikmönnum okkar þurftu að fara í launalaus frí til að fara á HM og margar geta ekki æft nærri eins mikið og þær þyrftu að gera síðan af því þær eru á kafi í vinnu til að vinna upp það sem þær misstu úr á HM," sagði Aluko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×