Angelina Jolie segist hafa farið að hlæja þegar hún heyrði að hún væri tilnefnd til Golden Globe fyrir leik sinn í hasarmyndinni The Tourist.
Jolie stillti sér upp fyrir ljósmyndara á rauða dreglinum ásamt unnustanum Brad Pitt þegar myndin var frumsýnd í Þýskalandi og upplýsti nærstadda blaðamenn að þetta væri í fyrsta skipti sem hún væri tilnefnd í gaman/söngmyndaflokknum. „Þetta er eitthvað algjörlega nýtt fyrir mér, ég fór að hlæja þegar ég heyrði af þessu,“ sagði Jolie.
Mótleikari hennar í myndinni, Johnny Depp, er hins vegar þaulreyndur í flokknum og er tilnefndur í ár fyrir leik sinn í The Tourist. Og það er sitthvað fleira sem er nýtt fyrir Jolie hvað The Tourist varðar. Því myndin hefur á engan hátt náð að heilla gagnrýnendur eða áhorfendur og þykir vera hálfgert flopp. Þau Jolie og Depp geta þó huggað sig við tilnefningarnar.
