Fótbolti

Loka vellinum þar sem Ísland keppti sögulegan leik á EM sumarið 2016

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og íslensku strákarnir eftir að lokaflautið gall í leik Íslands og Portúgals á Stade Geoffroy-Guichard í Saint-Etienne á EM 2016.
Cristiano Ronaldo og íslensku strákarnir eftir að lokaflautið gall í leik Íslands og Portúgals á Stade Geoffroy-Guichard í Saint-Etienne á EM 2016. Getty/Ian MacNicol/

Flugelda- og blysanotkun stuðningsmanna Saint-Etienne um síðustu helgi hefur sínar afleiðingar.

Heimavelli Saint-Etienne hefur nú verið lokað um óákveðinn tíma eftir mjög mikla notkun stuðningsmanna heimaliðsins á flugeldum og blysum í tapleik á móti Paris Saint-Germain á sunnudaginn.



Þegar Kylian Mbappe skoraði fjórða mark PSG á 89. mínútu leiksins var stúkan uppfull af blysum og flugeldum þannig að úr varð mikil sjónarspil. Notkun flugelda og blysa er hins vegar bönnuð á fótboltaleikjum. Dómari leiksins flautaði leikinn af í kjölfarið.

Forráðamenn frönsku deildarinnar hafa nú ákveðið að loka leikvanginum vegna hegðunar stuðningsmanna.



Stade Geoffroy-Guichard leikvöllurinn í Saint-Etienne í Frakklandi verður alltaf þýðingarmikill fyrir íslenska knattspyrnu því þar sem spilaði íslenska karlalandsliðið sinn fyrsta leik á stórmóti sumarið 2016.

Ísland gerði þá 1-1 jafntefli við Portúgal 14. júní 2016 en báðar þjóðir áttu eftir að ná frábærum árangri á þessu Evrópumóti. Portúgal varð Evrópumeistari í fyrsta sinn og íslenska landsliðið tapaði ekki fyrr en í átta liða úrslitum og þá á móti heimamönnum í franska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×