Innlent

Fólk leiði hugann að viðbragðsaðilum og fórnarlömbum umferðarslysa

Nadine Guðrún Yaghi og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Slökkviilðsmenn á vettvangi umferðarslyss
Slökkviilðsmenn á vettvangi umferðarslyss Vísir/Vilhelm
Fimm hafa látist í umferðarslysum hér á landi í ár og fjöldi fólks slasast alvarlega. Í dag er alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa. Í dag fór fram athöfn við þyrlupall bráðamóttöku Landsítalans í Fossvogi að þessu tilefni.

Þetta er áttunda árið þar sem slík athöfn fer fram hér á landi og fórnarlamba umferðarslysa er minnst. Dagurinn er einnig tileinkaður viðbragðsaðilum sem kallaðir eru á vettvang að sögn Einars Magnúsar Magnússonar, sérfræðings í öryggismálum hjá Samgöngustofu.

„Það er að segja þá sem að eru kallaðir til á vettvang slysa og þurfa oft við mjög erfiðar aðstæður að takast á við hlutina. Við Íslendingar eigum þessu fólki svo mikið að þakka,“ segir Einar í samtali við fréttastofu.

Fimm of mikið

Samgöngustofa og Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið standa að baki viðburðinum en tilgangurinn dagsins er meðal annars að hvetja fólk til þess að leiða hugann að tilefninu og ekki síður þeirri ábyrgð sem hver og einn ber í umferðinni. Sambærilegar athafnir voru haldnar víða um landið.

„Við viljum hvetja fólk til þess að helga þennan dag því að leiða hugann að þeim viðbragðsaðilum sem að bjarga okkur og hjálpa okkur og líka leiða hugann að þeim fórnarlömbum umferðarslysa sem eru því miður svo mörg.“

Um fjögur þúsund manns láta lífið í umferðarslysum í heiminum á degi hverjum og hundruð þúsunda slasast. Samkvæmt tölum frá Samgöngustofu hafa 1578 manns látist í umferðinni hér á landi frá því að fyrsta banaslysið varð í umferð hér á landi árið 1915. Nokkrir hafa látist í ár.

„Þegar þessi orð eru sögð núna þá hafa fimm látist í umferðinni hér á landi, það er vitanlega fimm of mikið og það er fjöldi fólks sem hefur slasast alvarlega.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×