Fótbolti

Sportpakkinn: Balotelli varð fyrir rasisma en stjóri Verona sagði að ekkert hefði gerst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Balotelli varð fyrir kynþáttafordómum gegn Verona en skoraði svo fyrir framan rasistana.
Balotelli varð fyrir kynþáttafordómum gegn Verona en skoraði svo fyrir framan rasistana. vísir/getty
Mario Balotelli varð fyrir kynþáttafordómum í leik Verona og Brescia í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Á 54. mínútu fékk Balotelli nóg af apahljóðunum, sparkaði boltanum upp í stúku og ætlaði að ganga af velli.

Hann hélt þó leik áfram og skoraði fallegt mark á 85. mínútu. Hann minnkaði þá muninn í 2-1 sem urðu lokatölur leiksins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stuðningsmenn Verona gerast sekir um rasisma. Þeim hefur þó aldrei verið refsað.

Eftir leikinn sagði knattspyrnustjóri Verona, Ivan Juric, að Balotelli hefði gert of mikið úr málinu.

„Fyrir það fyrsta vil ég segja að það er ekki hægt að leggjast lægra en að vera rasisti. Þú getur ekki lagst lægra en að hata einhvern út af húðlit hans. Upp á síðkastið hefur þetta komið oft upp á Ítalíu, því fólk trúir því að öll þeirra vandamál séu þeldökku fólki að kenna. Ég er alfarið á móti rasisma,“ sagði Juric.

„En í dag [í gær] gerðist ekki neitt. Ekkert. Ég ræddi við fjórða dómarann og hann sagðist ekki hafa orðið var við neinn rasisma. Stuðningsmennirnir stríddu Mario og blístruðu á hann en það voru engir kynþáttafordómar. Ég vil ekki saka hann um neitt, kannski hefur hann orðið fyrir kynþáttafordómum á öðrum stöðum, og kannski hérna áður fyrr, en í dag [í gær] gerðist ekkert.“

Frétt Ríkharðs Óskars Guðnasonar má sjá hér fyrir neðan.



Klippa: Sportpakkinn: Balotelli varð fyrir rasisma







Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×