Innlent

Banna flutning á ali­fuglum frá Dísu­koti

Atli Ísleifsson skrifar
Meintur ólöglegur innflutningur kalkúnafrjóeggja frá Færeyjum á síðasta ári er ástæða bannsins.
Meintur ólöglegur innflutningur kalkúnafrjóeggja frá Færeyjum á síðasta ári er ástæða bannsins. Getty

Matvælastofnun hefur sett flutningsbann á alla alifugla frá bænum Dísukoti í Þykkvabæ.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að ástæða flutningsbanns sé meintur ólöglegur innflutningur kalkúnafrjóeggja frá Færeyjum á síðasta ári. Undan eggjunum hafi komið svartir kalkúnar sem hafi verið í fréttum nýverið.

„Bannið miðar að því að koma í veg fyrir mögulega dreifingu smitsjúkdóma í aðra alifugla.

Í lögum um innflutning dýra kemur fram að óheimilt sé að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra. Ný smitefni geta borist til landsins með frjóeggjum. Ráðherra getur heimilað innflutning dýra og erfðaefnis, að fengnum meðmælum Matvælastofnunar, undir ströngum skilyrðum. Þannig getur ráðherra meðal annars heimilað flutning til landsins á frjóeggjum alifugla á einangrunarstöð. Dýr úr þessum frjóeggjum má ekki flytja úr einangrunarstöð fyrr en tryggt þykir að þau séu laus við smitsjúkdóma.

Verið er að afla upplýsinga um innflutninginn og aðkomu og ábyrgð hlutaðeigandi aðila,“ segir í tilkynningunni.

Að neðan má sjá frétt Stöðvar 2 um svörtu kalkúnana í Þykkvabænum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×