Sport

Fékk tvær refsingar en vann samt íslensku stelpurnar í fyrsta hluta CrossFit open

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir eftir góða æfingu.
Anníe Mist Þórisdóttir eftir góða æfingu. Instagram/anniethorisdottir

Nú stendur yfir opni hluti heimsleikanna í CrossFit þar sem CrossFit fólkið fær tækifæri til að tryggja sér sæti á heimsleikunum á næsta ári. Íslendingar voru meðal efstu manna en tókst þó ekki að tryggja sér peningaverðlaunin fyrir fyrsta hlutann.

Sigurvegar hvers hluta í CrossFit open fá tvö þúsund og tuttugu dollara í sinn hlut eða um 253 þúsund krónur. Grikkinn Lefteris Theofanidis og hin írska Emma McQuaid gerðu betur en allir í fyrsta hlutanum en Ísland átti þrjá keppendur á topp fimm.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir stóð sig best af íslensku stelpunum og náði þriðja sætinu en Anníe Mist Þórisdóttir varð fimmta. Katrín Tanja Davíðsdóttir varð síðan í 28. sæti.

Björgvin Karl Guðmundsson varð í þriðja sæti hjá körlunum en handbolta- og fótboltadómarinn Sigurður Hjörtur Þrastarson kom næstu íslensku karlanna í 34. sætinu.Fyrsti hlutinn var tímaþraut þar sem keppendur gerðu tíu umferðir af því að lyfta 43/29,4 kílóa slá frá jörðu og yfir höfuð átta sinnum og fylgja því eftir með tíu „burpees“. Þetta er klassísk CrossFit æfing sem reynir vel á viðkomandi. Strákarnir lyfta þyngri slánni.

Grikkinn Lefteris Theofanidis kláraði þetta á 8:05 mínútum en hin írska Emma McQuaid á 7:55 mínútum. Emma McQuaid skilaði reyndar inn tímanum 7:41 mínútur en fékk á sig tvær refsingar og tíminn hennar endaði því í 7:55 mínútum.

Björgvin Karl Guðmundsson kláraði á 8:16 mínútum en Ragnheiður Sara á 8:11 mínútum. Anníe Mist fór þetta á 8:25 mínútum.

Emma McQuaid keppti á heimsleikunum í fyrsta sinn á þessu ári og náði 21. sæti. Lefteris Theofanidis var líka með í fyrsta sinn í ár og endaði þar í 60. sæti. Þau eru bæði þrítug.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.