Menning

Rússar hrifnir af okkar ríkulegu menningu

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þær Alexandra og Gerður alsælar í hinni stórkostlegu Pétursborg.
Þær Alexandra og Gerður alsælar í hinni stórkostlegu Pétursborg.
Tónleikarnir í Pétursborg voru yndislegir, þar var fullt hús af áhugasömum áheyrendum sem voru mjög þakklátir fyrir að fá að kynnast íslenskri, lifandi tónlist,“ segir Gerður Bolladóttir söngkona sem er nýlega komin úr mikilli Bjarmalandsför til Rússlands. Þangað fór hún ásamt stallsystur sinni Alexöndru Chernyshovu söngkonu og Kjartani Valdimarssyni píanóleikara.

Gerður segir þekkt rússneskt tón­listarfólk hafa verið meðal áheyrenda. „Það komu margir til okkar eftir tónleikana og lýstu yfir hrifningu sinni á ríkulegri menningu Íslands, tónlistinni sem við fluttum og ljóðum sem voru þýdd yfir á rússnesku og varpað á tjald meðan flutningi stóð. Við bara heilluðum þá upp úr skónum!“

Báðar eru þær Gerður og Alexandra sópransöngkonur og líka tónskáld og meðal þess sem þær sungu fyrir Rússana voru eigin lög.

„Við frumfluttum þrjú lög við ljóð sem Sigurður Ingólfsson orti handa mér. Svo sungum við rómantísk tónverk eftir mig við ljóð íslenskra skálda, meðal annars Kristján Hreinsson og líka langömmu mína og frændur. Einnig sungum við aríur, dúett og kór úr óperunni Skáldið og Biskupsdóttirin eftir Alexöndru við líbrettó Guðrúnar Ásmundsdóttur. Píanóleikur var í höndum Kjartans Valdemarssonar, eins af okkar bestu píanóleikurum, og hlutverk Hallgríms Péturssonar í óperunni söng bassa-barítónsöngvari frá Moskvu. Hann heitir Sergei Telenkov og hann söng á íslensku.“

Gerður segir Alexöndru hafa átt hugmyndina að þessum tónleikum eins og fleiri viðburðum af líkum toga. „Hún Alexandra er rússneskrar ættar en hefur búið hér á landi í mörg ár og verið virk í tónlistarsenunni, eins og flestir vita. Henni datt í hug fyrir nokkrum árum að gaman væri að mynda tónlistarmenningarbrú milli Rússlands og Íslands. Það verkefni nefnist Russian Souvenir og hefur nú staðið í fjögur ár. Á þeim tíma hafa verið settir upp fimmtán viðburðir bæði í Rússlandi og hér og okkar ferð tilheyrði því verkefni.“

Rússneskir fjölmiðlar voru áhugasamir um tónleikana. Gerður segir þær Alexöndru og Kjartan hafa farið í viðtöl í sjónvarpi og líka í elstu og rótgrónustu útvarpsstöð Pétursborgar og eiginmaður Alexöndru, Jón R. Hilmarsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, hafi sýnt ljósmyndir sem hrifu fólk. „Ég held ég geti fullyrt að áheyrendur bjuggust ekki við svona flottum tónleikum og líka ljósmyndasýningu,“ segir Gerður og bætir við að Jón opni aðra sýningu í Pétursborg á sunnudaginn, 13. október, á opnunarhátíð Nordic Weeks.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×