Íslenski boltinn

Stjarnan staðfestir að Atli Sveinn sé hættur: Að taka við Fylki

Anton Ingi Leifsson skrifar
Atli Sveinn Þórarinsson er hann lék með Val.
Atli Sveinn Þórarinsson er hann lék með Val. vísir/valli
Allt bendir til þess að Atli Sveinn Þórarinsson verði næsti þjálfari Fylkis í Pepsi Max-deild karla og taki þar af leiðandi við af Helga Sigurðssyni.

Atli Sveinn hefur undanfarin tvö ár verið yfirþjálfari yngri flokka hjá Stjörnunni en nú virðist hann vera á leiðinni í meistaraflokksboltann.

Vefsíðan 433.is greinir frá því í morgun að send hafi verið út yfirlýsing á foreldra og forráðamenn hjá börnum í yngri flokkum Stjörnunnar þess efnis að Atli Sveinn væri að hætta störfum.

„Ykkur til upplýsinga þá hafa Stjarnan og Atli Sveinn Þórarinsson, yfirþjálfari knattspyrnudeildar Stjörnunnar, komist að samkomulagi um starfslok þar sem honum bauðst í vikunni þjálfarastarf mfl. kk hjá liði í Pepsi deild,“ segir í yfirlýsingunni.

Atli mun því taka við Fylkisliðinu af Helga Sigurðssyni en samningur hans var ekki framlengdur í Árbænum eftir gott starf undanfarin ár.

Fylkismenn fengu neitun frá Ólafi Jóhannessyni en reikna má með að Atli Sveinn verði tilkynntur á allra næstu dögum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×