Lífið

Matarbloggarar sameina krafta sína í nýrri uppskriftabók

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
María Gomez segir að bloggararnir þekkist ekki vel innbyrðis en heildarútkoman verið einstaklega vel heppnuð.
María Gomez segir að bloggararnir þekkist ekki vel innbyrðis en heildarútkoman verið einstaklega vel heppnuð. Aðsend mynd
Bloggararnir María Gomez, Anna Eiríks, Berglind Hreiðars, Hildur Rut, Lólý og Tinna Alavis voru að gefa út saman bókina Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum. Um er að ræða fallega uppskriftabók þar sem lesendur fá einnig að kynnast betur konunum á bakvið allar fallegu matarmyndirnar og girnilegu uppskriftirnar.

„Við eigum hver sinn kafla, Gunni hafði samband við okkur og bað okkur um að láta sig hafa efni um vinsælustu uppskriftirnar af síðunum okkar,“ segir María Gomez sem heldur úti bloggsíðunni Paz.is. María skrifar mikið um mat og innanhúshönnun og er líka dugleg að gefa fólki Innblástur í gegnum Instagram.

„Hver og ein fær að vera hún sjálf. Við eigum matarmyndirnar og uppskriftirnar  í okkar kafla, tökum myndirnar sjálfar og skrifum textann, þetta er svo skemmtilegt því þeir sem þekkja mitt efni sjá alveg mig í mínum kafla.“

María segir að hver og einn bloggari fái að njóta sín í þessari bók.Mynd/Hildur Rut

Persónulegir kaflar

Þessar öflugu konur á bakvið bókina eru allar að gera góða hluti en þekktust samt ekki vel innbyrðis, sumar þeirra munu hittast í fyrsta skipti í útgáfupartýinu.

„Það er svolítið fyndið að kalla þetta samstarfsverkefni því að við þekkjumst ekkert. Ég og Berglind vorum aðeins búnar að kynnast áður og ég og Hildur þekktumst lítillega en það hefur nú myndast vinskapur milli mín og Hildar og mín og Berglindar en við erum aldrei þrjár að tala saman,“ segir María og hlær. „Verðið er líka snilld, svo þetta er frábær jólagjöf.“

María segir að það geri bókina að heild, að fremst og aftast í bókinni og á undan hverjum kafla, eru fallegar svarthvítar myndir sem Hildur Rut tók af þeim öllum fyrir bókina. Á undan hverjum kafla eru persónulegar myndir sem Hildur Rut tók af hverjum bloggara og margar völdu að hafa fjölskylduna með á myndunum líka.

„Hver og ein er með upphafskafla þar sem hún segir frá sjálfri sér með eigin orðum.“

María segir að spænsk áhrif séu áberandi í mörgum af hennar uppskriftum.Mynd/María Gomez

Íhugaði að hætta að blogga

Það er Gunnar Már Sigfússon sem gefur út bókina en hann hefur einnig gefið út LKL bækur síðustu ár. María segir að það sé æðislegt að sjá hvað styrkleikar hverrar og einnar fái að njóta sín í bókinni, hvort sem það eru heilsuuppskriftir eða girnilegar kökur.

„Hildur Rut setur upp bókina en Gunni kom með hugmyndina að útlitinu, hann hafði séð þetta einhvern tímann í tímariti fyrir mörgum árum í Ameríku og hann langaði svo í þetta útlit á bók, þetta sat alltaf í honum.“ 

María heldur úti vinsælu bloggi og Instagram síðu, full af fallegri innanhúshönnun og girnilegum uppskriftum.Mynd/María Gomez
María segist vera stolt af því að vera hálfur Spánverji og spænsk menning er stór partur af hennar lífi, eldamennskan er því oft undir spænskum áhrifum. „Minn stíll, hvernig ég blogga, er að það fylgir alltaf smá saga með uppskriftinni. Mér sjálfri finnst persónulega gaman að lesa bækur þar sem það fylgir eitthvað persónulegt með uppskriftum.“

María segir að þessi bók hafi komið á fullkomnum tíma þar sem hún stóð á tímamótum með bloggið sitt og var jafnvel að íhuga það að loka síðunni. Bókin gaf henni kraft til að halda áfram og eru því spennandi tímar og verkefni framundan hjá henni á næstunni.  

„Þetta er svo falleg bók. Hugmyndin er sú að þetta verði að bókasería, sem hægt verði að safna.“ Gunnar Már stefnir á að gefa út fleiri svona bækur með uppskriftum eftir mismunandi aðila, en útlitið verður alltaf það sama svo þær verða flottar saman uppi í hillu.

Heiðraði föður sinn

Bókin er auglýst þannig að þar sé að finna 20 uppskriftir frá sex bloggurum, en staðreyndin er sú að í bókinni eru 121 uppskrift.

„Pabbi dó þegar ég var að gera þessa bók. Daginn eftir að ég samþykkti að vera með var hringt í mig og sagt að pabbi væri veikur á spítala, ég þarf því bara að stökkva út.“ 

Þegar María frétti af veikindunum bókaði hún sér flug til Spánar, til þess að missa ekki af tækifærinu til að kveðja.

Ein uppskrift Maríu er tileinkuð föður hennar, sem lést á meðan bókin var í vinnslu.Mynd/Úr einkasafni
„Þá fór ég til konunnar hans sem ég var að hitta í fyrsta skipti, þau höfðu verið gift í mörg ár en við pabbi hittumst bara alltaf einhvers staðar annars staðar, eins og í þorpinu hjá systur hans. Þarna kynnist ég henni í fyrsta skipti, þegar pabbi var veikur og dauðvona á spítala. Hún bakar handa  mér uppáhalds kökuna hans pabba og gefur mér uppskriftina. Ég geri hana um leið og ég kem heim og tek myndir af henni og bað Gunna um að fá að hafa hana í bókinni til heiðurs pabba.“

María fékk því að hafa eina leyniuppskrift í bókinni, honum til heiðurs. Faðir Maríu lést viku eftir að hún kom heim aftur frá því að heimsækja hann á spítalann á Spáni.

„Ég hef ótrúlega mikla trú á þessari bók og er virkilega stolt af henni. Hver og ein fær að skína í sínum kafla.“

Úr bókinni Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum.Mynd/María Gomez
Áhugasamir geta fylgst með Maríu á Instagram HÉR.


Tengdar fréttir

Fermingarterta skreytt með gulli

Berglind Hreiðarsdóttir hefur haldið úti glæsilegri bloggsíðu þar sem sjá má gullfallegar tertur. Berglind bauð upp á gulltertu í fermingu dóttur sinnar og gefur hér uppskriftina að henni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.