Fótbolti

Birkir Bjarnason til Heimis og Arons í Katar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir í leik með íslenska landsliðinu
Birkir í leik með íslenska landsliðinu Vísir/Getty
Það virðist nær öruggt að landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason sé að ganga til liðs við Al-Arabi í Katar. Þar mun hann hitta fyrrum þjálfara sinn hjá íslenska landsliðinu, Heimi Hallgrímsson, sem og samherja sinn í landsliðinu og fyrirliða, Aron Einar Gunnarsson. Þetta var staðfest á Instagram-reikningi í Al-Arabi seint í gærkvöld.

Samkvæmt heimildum Fótbolti.net mun Birkir aðeins gera samning fram í janúar en hans hlutverk er að leysa Aron Einar Gunnarsson af hólmi á meðan fyrirliðinn jafnar sig af meiðslum sem hann varð fyrir á dögunum. Aron Einar missti í kjölfarið af landsleikjunum gegn Frakklandi og Andorra. Þá er talið ólíklegt að fyrirliðinn nái síðustu leikjunum í undankeppni EM 2020. 

Birkir var mikið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í 4-2 tapinu gegn Albaníu í haust og var talið að slæmt leikform spilaði þar inn í. Hann var hins vegar stórkostlegur í naumu tapi Íslands gegn heimsmeisturum Frakklands í síðasta landsleikjahléi og ljóst að íslenska landsliðið ætti að njóta góðs af vistaskiptum hans til Katar.

Birkir hefur verið samningslaus frá því snemma í haust þegar Aston Villa sagði upp samningi hans. Hefur hann verið orðaður sterklega við ensku B-deildar liðin Derby County og Stoke City. Með því að fara til Katar kemst hann í leikæfingu sem og hann getur skipt um lið strax í janúar án þess að semja þurfi um kaupverð.

Al-Arabi er sem stendur í 2. sæti þegar fimm umferðum er lokið.




Tengdar fréttir

Hamrén: Rétt að velja Birki og Emil í hópinn

Þrátt fyrir að vera án félags voru Birkir Bjarnason og Emil Hallfreðsson valdir í íslenska landsliðshópinn sem mætir Frakklandi og Andorra í undankeppni EM 2020.

Það þarf að fylla skarð fyrirliðans

Ísland leikur í kvöld við Frakkland í undankeppni EM 2020 í knattspyrnu karla. Frakkland og Tyrkland eru fyrir umferðina á toppi riðilsins en Ísland kemur þar á eftir.

Skyldusigur gegn Andorra í kvöld

Andorra vann sinn fyrsta leik í undankeppni EM á föstudaginn. Liðið hafði áður tapað öllum 56 leikjum sínum í undankeppni EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×