Lífið

Æskuminningar Elísabetar metnar á fimm hundruð krónur í Góða hirðinum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Elísabet ætlar að glugga í albúmið með fjölskyldunni á næstu dögum.
Elísabet ætlar að glugga í albúmið með fjölskyldunni á næstu dögum.
„Ég fæ myndband sent frá vinkonu minni þar sem hún er í Góða hirðinum að fletta í gegnum eitthvað myndaalbúm. Fyrstu myndirnar eru bara af einhverjum gróðri og bústað en síðan kemur upp mynd af mér frá því að ég er barn,“ segir Elísabet Brynjarsdóttir hjúkrunarfræðingur en í gær komst hún að því að fjölskyldualbúm fullt af myndum af henni úr barnæsku væru til sölu á litlar 500 krónur hjá nytjamarkaðnum.

„Vinkona mín lýsir þessu þannig að hún hafi allt í einu séð barn sem væri nú frekar líkt mér en þegar hún hélt áfram að fletta kom önnur mynd þar sem stóð Elísabet undir. Þá hugsar hún bara að þetta sé fyndin tilviljun en þegar hún heldur áfram að skoða albúmið kemur í ljós að það eru fleiri myndir af mér og systkinum mínum. Þá ákveður hún að senda mér myndband og þá kom bara í ljós að þetta er myndaalbúm sem er fullt af fjölskyldumyndum af okkur.“

Hún segist í raun ekki vita nákvæmlega hvernig þetta geti gerst.

„Ég rýndi betur í myndirnar og sá að skriftin við myndirnar var alveg eins og skriftin hans afa sem lést fyrir nokkrum árum. Ég hringdi þá í pabba og hann vissi ekkert hvað væri í gangi. Okkur grunar að líklegasta ástæðan sé að þegar dánarbúið var tekið hafi þetta óvart endað á haugunum. Ég vona það allavega, frekar en að það sé einhver í fjölskyldunni sem hefur bara ákveðið að henda þessu. Það sem er svo ógeðslega fyndið í þessu að það hafi einhver hent þessu, svo hafi einhver hjá Góða hirðinum ákveðið að setja þetta í sölu og svo hafi vinkona mín keypt albúmið.“

Hún segir sérkennilegt að æskuminningar hennar séu aðeins metnar á fimm hundruð krónur.

„Ég er ekki komin með albúmið í hendurnar en vinkona mín borgaði uppsett verð og ætlar að gefa mér albúmið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×