Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - HK/Víkingur 3-1 | Eyjakonur felldu HK/Víking

Einar Kárason skrifar
vísir/daníel
Það var mikið undir þegar ÍBV tók á móti HK/Víking í frestuðum leik á Hásteinsvelli í dag. ÍBV í 10. sæti deildarinnar, einu sæti frá falli og HK/Víkingur í því neðsta en áttu þó möguleika á að halda sér á lífi með sigri í dag.

Leikurinn fór skemmtilega af stað en strax eftir eina mínútu komst Brenna Lovera með boltann upp að endalínu og náði fyrirgjöf sem nánast dansaði á marklínu en inn vildi boltinn ekki. Einungis nokkrum sekúndum síðar fékk Brenna svo dauðafæri þegar hún fékk boltann inn fyrir vörn gestanna en Audrey Baldwin í marki HK/Víkings varði frábærlega. Eftir þessa fjörugu byrjun róaðist leikurinn aðeins niður. Gestirnir áttu sína fyrstu tilraun eftir tæplega korters leik en skot Fatma Kara beint á Guðnýju Geirsdóttur í marki ÍBV.

Mikið rok var í Vestmannaeyjum í dag og kalt úti en þrátt fyrir erfiðar aðstæður var spilaður góður fótbolti þar sem boltanum var haldið á jörðinni. Guðný Geirsdóttir var reyndar stálheppin eftir rúmlega hálftíma leik þegar sending hennar með jörðinni frá markinu fór beint fyrir fætur Fatma rétt fyrir utan teig. Fatma fór auðveldlega framhjá Mckenzie Grossman og náði skoti að marki en Guðnýju tókst að halda haus og verja boltann í horn.

Brenna Lovera fékk svo gott færi undir lok hálfleiksins eftir undirbúning frá Clöru Sigurðardóttur á hægri kantinum en skalli hennar yfir markið. Þetta reyndist það síðasta markverða úr fyrri hálfleiknum og þrátt fyrir yfirburði ÍBV gengu liðin jöfn til búningsherbergja.

Eyjastúlkur héldu uppteknum hætti frá því í fyrri hálfleiknum og pressuðu gestina stíft hátt á vellinum. Sóknarþungi ÍBV átti eftir að skila árangri en þegar síðari hálfleikur var einungis 6 mínútna gamall braut Emma Rose Kelly ísinn með frábæru hægri fótar skoti fyrir utan teig í hornið fjær. Brenna var nálægt því að tvöfalda forustuna einungis mínútu síðar en skot hennar af stuttu færi í stönginni nær.

Brenna hélt þó áfram að koma sér í færin og kom loks boltanum í netið eftir stórglæsilega sendingu Clöru inn á teig þar sem Brenna kom á ferðinni og skoraði af stuttu færi. Simone Kolander, sem var einna sprækust í liði gestanna, minnti heldur betur á sig þegar hún átti flottan sprett upp vinstri kantinn en skot hennar beint á Guðnýju.

Þegar um 15 mínútur eftir lifðu leiks gerði Brenna út um allar vonir gestaliðsins um að fá eitthvað af stigum úr þessum leik þegar hún skoraði sitt annað mark. Brenna fékk þá sendingu inn fyrir vörnina, lék boltanum framhjá Audrey í markinu og skoraði í autt markið. Staðan 3-0 og HK/Víkingur á leið niður um deild.

Gestirnir sýndu oft á tíðum fína spretti í leiknum og náði Simone að minnka muninn þegar skammt var eftir. Simone sýndi þá svipaða takta og fyrr í leiknum þar sem hún fór illa með varnarmenn ÍBV og skoraði með föstu skoti á nærstöng sem Guðný réð ekki við.

Lengra komust þær þó ekki og leiknum lauk með 3-1 sigri ÍBV sem fór langt með það að tryggja sæti sitt í deild þeirra bestu.

Jón Ólafur Daníelssonvísir/daníel
Jón Ólafur: Var pissfúll í hálfleik

Þetta er viss léttir og ég er þakklátur fyrir framlagið frá leikmönnum í dag,” sagði Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari ÍBV, eftir leik.Það er visst jafnvægi komið inn í leik liðsins. Eftir að við misstum Cloé (Lacasse), þá erum við loksins að finna vissan jafnvægispunkt sem við vinnum útfrá.”

Ég var pissfúll í hálfleik. Mér fannst við geta gert 3 mörk á fyrstu 10 mínútum leiksins og það var svekkjandi að vera ekki yfir í hálfleik. Við náðum að nýta hálfleikinn óvenju vel og fengum mark snemma í seinni hálfleik. Þetta var sanngjarn sigur.”

Það tók ÍBV tíma að koma boltanum í netið en eftir að það tókst var leikurinn í þeirra höndum.Ég held við höfum verið betri aðilinn allan leikinn. HK/Víkingur hefði getað gert 2 mörk í fyrri hálfleik en þetta hafðist á öruggan hátt.”

Þær (fremstu 3) voru alveg frábærar eins og allt liðið. Þær voru samstilltar og gerðu þetta með glæsibrag. Það var skelfilegt að missa Cloé og ekki mögulegt að fylla hennar skarð, það gerir það enginn. En þessar 3 sem voru fremstar í dag gerðu þetta vel.”

Sigurinn færir ÍBV nær öruggu sæti í deildinni en Jón Óli er ekki tilbúinn að fagna strax.

Þetta er ekki nærrum því búið. Auðvitað erum við góðu skrefi nær. En þar til það er endanlega öruggt ætla ég ekki að ræða næsta tímabil,” sagði Jón að lokum.

Clara í leik með ÍBV í sumarvísir/bára
Clara: Vorum með leikinn allan tímann

Clara Sigurðardóttir átti góðan leik í framlínu ÍBV.Þetta er bara geggjað. Við ætluðum okkur sigur í þessum leik. Þetta var að duga eða drepast og við ætluðum að klára þetta. Við sýndum í dag að við áttum skilið sigur.”

Það er erfitt þegar maður fær fullt af færum og nær ekki að skora. Þá verður maður óþolinmóður en þá verður maður bara að halda sínu marki hreinu og halda áfram að fara í sókn og vera þolinmóðar og klára færin. Við vorum alveg með þennan leik. Vorum rólegar og héldum boltanum vel. Fengum okkar færi og vorum eiginlega bara með leikinn allan tímann að mínu mati.”

Við höldum bara áfram núna og ætlum að sækja öll stig sem eru eftir. Við erum á uppleið. Það er frábært hvað ÍBV nær að gefa ungum leikmönnum tækifæri og þessar stelpur eru geggjaðar miðað við aldur. Þær koma hérna inn og eru með leikmenn í vasanum. Þær eiga allar eftir að ná langt,” sagði Clara kokhraust að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira