Erlent

Sádar segjast ætla að sanna aðkomu Íran að árásinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Spenna á milli Sádi-Arabíu og Bandaríkjanna annars vegar og Íran hins vegar er mikil og hefur aukist til muna á undanförnum dögum eftir að umfangsmikil árás var gerð á stóra olíuvinnslu í Sádi-Arabíu.
Spenna á milli Sádi-Arabíu og Bandaríkjanna annars vegar og Íran hins vegar er mikil og hefur aukist til muna á undanförnum dögum eftir að umfangsmikil árás var gerð á stóra olíuvinnslu í Sádi-Arabíu. AP/Ríkisstjórn BNA/DigitalGlobe

Yfirvöld Sádi-Arabíu segjast ætla að opinbera í dag sönnunargögn um að Íranar beri ábyrgð á árás á olíuvinnslustöð, þá stærstu í heimi, þar í landi um helgina. Hassan Rouhani, forseti Íran, sagði ríkisstjórn sinni að Sádar ættu að líta á árásina sem viðvörun um að hætta stríðsrekstri þeirra í Jemen. Hann gaf í skyn að Hútar hefðu framkvæmt árásina og sagði þá ekki gera loftárásir á sjúkrahús eða skóla, eins og Sádar hafa ítrekað verið sakaðir um í Jemen.

Spenna á milli Sádi-Arabíu og Bandaríkjanna annars vegar og Íran hins vegar er mikil og hefur aukist til muna á undanförnum dögum eftir að umfangsmikil árás var gerð á stóra olíuvinnslu í Sádi-Arabíu. Bandaríkjamenn segja vísbendingar um að Íran hafi framkvæmt árásina en Íranar neita því. Hútar, sem eiga í átökum við Sáda og bandamenn þeirra í Jemen og eru studdir af Íran, hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Umfang árásarinnar og nákvæmni þykir þó til marks um að Hútar hafi ekki burði til að gera slíka árás.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hefur varað Bandaríkjamenn við því að ferðast til Sádi-Arabíu og að þeir sem geri það sýni aðgát.

Varnarmálaráðuneyti Sádi-Arabíu mun halda blaðamannafund í dag og í tilkynningu segir að þar verði ljósi varpað á aðkomu Íran að árásinni og að hún hafi ekki verið gerð frá Jemen. AP fréttaveitan hefur eftir sendiherra Sádi-Arabíu í Bretlandi að Sádar séu sannfærðir um að Íranar hafi komið að árásinni. Þeir vilji hins vegar fara sér hægt því það síðasta sem þeir vilji séu frekari átök á svæðinu.
 


Tengdar fréttir

Gefur lítið fyrir viðræður við Trump

Ali Khamenei, leiðtogi Íran, segir ekki koma til greina að opna viðræður við Bandaríkin. Mögulega væri hægt að ræða við Bandaríkin í samfloti við önnur ríki, ef Bandaríkin gangi aftur að kjarnorkusamkomulaginu svokallaða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.