Agüero með tvö í sigri City á suðurströndinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Agüero skoraði tvö mörk í dag og hefur skorað í öllum þremur deildarleikjum City á tímabilinu.
Agüero skoraði tvö mörk í dag og hefur skorað í öllum þremur deildarleikjum City á tímabilinu. vísir/getty
Manchester City komst upp í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 1-3 sigri á Bournemouth á útivelli í dag.

Sergio Agüero skoraði tvö mörk fyrir City og hefur nú skorað 400 mörk fyrir félags- og landslið á ferlinum.



Ederson, markvörður City, var heppinn að sleppa aðeins með gult spjald þegar hann braut á Callum Wilson á 13. mínútu.

Tveimur mínútum síðar náðu Englandsmeistararnir forystunni þegar Agüero gerði sér mat úr mislukkuðu skoti Kevins De Bruyne og setti boltann fram hjá Aaron Ramsdale í marki Bournemouth.

Á 43. mínútu jók Raheem Sterling muninn í 0-2 þegar hann skoraði sitt fimmta mark á tímabilinu. Hann er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni ásamt finnska framherjanum Teemu Pukki hjá Norwich City.

Þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik minnkaði Harry Wilson muninn í 1-2 með stórglæsilegu marki með skoti beint úr aukaspyrnu.

Bournemouth byrjaði seinni hálfleikinn betur og Ederson varði vel frá Callum Wilson á 55. mínútu.

En níu mínútum síðar skoraði Agüero annað mark sitt og þriðja mark City og slökkti vonarneista Bournemouth.

City er með sjö stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar, tveimur stigum minna en topplið Liverpool. Bournemouth er í 10. sæti deildarinnar með fjögur stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira